Öldungadeild Bandaríkjaþings hefur komið í veg fyrir tillögu repúblikana um að afnema Obamacare, heilbrigðislöggjöf Baracks Obama fyrrverandi Bandaríkjaforseta, án þess að ný löggjöf komi í staðinn. Atkvæðagreiðsla um tillöguna fór á þann veg að 45 öldungadeildarþingmenn greiddu atkvæði með en 55 á móti.
Atkvæðagreiðslan fór fram aðeins degi eftir að öldungadeildin hafnaði áformum repúblikana um að draga til baka löggjöfina með nýjum lögum sem kæmu í staðinn.
Fyrri tilraunir Trumps til að afnema Obamacare hafa ekki gengið vel en eitt af kosningaloforðum hans var að Obamacare skyldi víkja. Þetta er í annað sinn í þessari viku sem þinginu tekst að hindra áform repúblikana um að afnema Obamacare með nýju frumvarpi.
Áformin hafa verið umdeild innan Repúblikanaflokksins en þingmenn munu nú hugsanlega skoða léttvægari leið til afnáms Obamacare sem ekki næði til umdeildustu ákvæða laganna. Með léttvægari leiðinni yrðu einhver óvinsælli ákvæði laganna afnumin, að því er BBC greinir frá.
Sjö þingmenn Repúblikanaflokksins greiddu í gær atkvæði gegn tillögunni um að afnema Obamacare án þess að ný stefna komi í staðin. Þá voru áform repúblikana um nýtt frumvarp, sem hefur verið í undirbúningi undanfarna tvo mánuði og kæmi í stað Obamacare, felld á þriðjudag þegar níu repúblikanar greiddu atkvæði gegn því. Féll sú tillaga með 57 atkvæðum gegn 43.
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur hvatt öldungadeildarþingmenn til að standa saman og styðja áform sín um afnám Obamacare. Hann hefur jafnframt lýst yfir óánægju sinni með skiptar skoðanir meðal repúblikana vegna málsins.