Vilja varnarmálaráðherrann líka í burtu

Frá vinstri á myndinni eru þau Thomas Eneroth, nýr ráðherra …
Frá vinstri á myndinni eru þau Thomas Eneroth, nýr ráðherra innviða, Helene Fritzon, nýr ráðherra innflytjendamála, Peter Hultqvist sem heldur áfram sem varnarmálaráðherra, Stefan Löfven forsætisráðherra, Annika Strandhäll, nýr félagsmálaráðherra og Morgan Johansson, nýr innanríkisráðherra. Two Swedish ministers will leave the government in a reshuffle sparked by a huge leak of sensitive data, Prime Minister Stefan Lofven said Thursday. / AFP PHOTO / TT News Agency / Erik SIMANDER / Sweden OUT AFP

Stjórnarandstöðuflokkarnir fjórir sem í sameiningu lögðu fram vantrauststillögu gegn þremur ráðherrum í sænsku ríkisstjórninni munu ekki fallast á það ráð sem Stefan Löfven, forsætisráðherra landsins, brá á til að bregðast við tillögunni. Sænska ríkisútvarpið SVT greinir frá.

Stjórn­ar­and­staðan lýsti í gær yfir van­trausti á þau Peter Hultqvist varn­ar­mála­ráð­herra, And­ers Ygemann inn­an­rík­is­ráð­herra og Anna Johans­son, ráðherra inn­við­a, en í morgun tilkynnti Löfven forsætisráðherra að þau Ygemann og Johansson myndu víkja úr sæti. Hultqvist aftur á móti muni sitja áfram í embætti en á það fallast stjórnarandstöðuliðar ekki og hyggjast þeir halda áfram með vantrauststillöguna á hendur Hultqvist.

Formenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa fundað í dag í framhaldi af tilkynningunni um uppstokkun í ríkisstjórninni og rætt það hvernig framhaldinu verði háttað varðandi vantrauststillöguna.

„Peter Hultqvist er ábyrgur fyrir varnarmálum ríkisins. Þrátt fyrir þá staðreynd að hann, líkt og Anders Ygemann, hefði fengið upplýsingar um annmarka á öryggismálum hjá Samgöngustofu í byrjun árs 2016 og vitað væri að þessir öryggismisbrestir væru álitnir alvarlegir, lét Hultqvist það hjá líða að upplýsa viðeigandi valdastofnanir, forsætisráðherra og þingið,“ segir í tilkynningu sem bandalag stjórnarandstöðuflokkanna sendi frá sér að loknum fundi þeirra í dag.

Þing ekki kallað saman

„Þessar staðreyndir hafa ekki breyst. Þess vegna mun yfirlýsing okkar um vantraust á hendur varnarmálaráðherranum Peter Hultqvist standa,“ segir ennfremur í yfirlýsingunni. Þá hafa Svíþjóðardemókratar, sem ekki eru aðilar að bandalagi stjórnarandstöðuflokkanna sem lýstu yfir vantrausti, einnig sagst munu leggja fram vantrauststillögu á hendur Hultqvist.

Þrátt fyrir þetta verður þing ekki kallað saman vegna þessa en þingið er nú í sumarleyfi. Að óbreyttu verður því kosið um tillöguna þegar sænska þingið kemur aftur saman í haust.

Á blaðamannafundi í Svíþjóð í morgun tilkynnti forsætisráðherrann að Thom­as Eneroth muni taka við embætti innviðaráðherra, Morg­an Johans­son verði inn­an­rík­isráðherra og Helé­ne Fritzon verði ráðherra inn­flytj­enda­mála. Þá tekur Annika Strand­häll við embætti fé­lags­málaráðherra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert