Fjölmiðlar í Japan og Suður-Kóreu segja stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa framkvæmt enn eina eldflaugatilraunina. Flaugin virðist hafa komið niður á japönsku hafsvæði, samkvæmt ríkisfréttastofunni NHK.
Bandaríkjamenn hafa einnig staðfest að hafa orðið skotsins varir.
Fyrr í mánuðinum héldu ráðamenn í Pyongyang því fram að hernum hefði tekist að skjóta á loft langdrægri eldflaug í fyrsta sinn. Um var að ræða síðasta eldflaugaskotið af mörgum, sem stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa staðið að í trássi við bann Sameinuðu þjóðanna.
Ekki liggur fyrir hversu langt flaugin sem skotið var á loft í dag fór.
Drægni langdrægra eldflauga Norður-Kóreu er umdeild en sumir sérfræðingar segja þær mögulega geta náð Alaska.
BBC og AFP sögðu frá.