Kemur Kelly reglu á starfsmannamál Hvíta hússins?

John Kelly, nýr starfmannastjóri Hvíta hússins, er sagður vera lítið …
John Kelly, nýr starfmannastjóri Hvíta hússins, er sagður vera lítið fyrir málalengingar. AFP

John Kelly, sem Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti, til­kynnti nú fyrr í kvöld að hefði tekið við sem starfs­manna­stjóri Hvíta húss­ins, er fyrr­ver­andi sjó­liðsfor­ingi. Frá því að Trump tók við embætti hef­ur Kelly gegnt embætti heima­varn­ar­ráðherra eft­ir 45 ára veru í hern­um.

Kelly, sem er 67 ára, hef­ur orð á sér fyr­ir að vera lítið fyr­ir mála­leng­ing­ar og víst þykir að hann þurfi á seigl­unni að halda í nýja starf­inu þar sem hann á að koma reglu á þá óreiðu sem virðist vera á starfs­manna­mál­um Hvíta húss­ins.

Trump til­kynnti á sam­skiptamiðlin­um Twitter í kvöld að Kelly tæki við að Reince Priebus sem starfs­manna­stjóri Hvíta húss­ins og sagði hann vera „frá­bær­an Banda­ríkja­mann“ og „frá­bær­an leiðtoga“.

Úr ís­lömsk­um öfga­mönn­um í póli­tískt baktjalda­makk

Kelly mun þar með fara frá því að leiða bar­átt­una gegn ís­lömsk­um öfga­mönn­um og ólög­leg­um inn­flytj­end­um yfir í að reka Hvíta húsið, sem und­an­farið hef­ur verið í skugga upp­lýs­ingaleka og póli­tísks baktjalda­makks vegna ásak­ana um tengsl fram­boðs for­set­ans við ráðamenn í Rússlandi.

AFP seg­ir Kelly vera einn af nokkr­um hátt­sett­um liðsmönn­um Trump-stjórn­ar­inn­ar sem eigi að baki fer­il í hern­um. Hann kom m.a. að landa­mæra­mál­um, straumi hæl­is­leit­enda og aðgerðum gegn fíkni­efna­smygli á Kyrra­hafi og í Rómönsku-Am­er­íku í starfi sínu í hern­um. Sú reynsla kom hon­um vel sem heima­varn­aráðherra, þar sem landa­mæra­eft­ir­lit og inn­an­lands­ör­yggi voru meðal helstu verk­efna.

Donald Trump Bandaríkjaforseti og John Kelly leggja hér blóm á …
Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti og John Kelly leggja hér blóm á gröf son­ar Kellys, Robert Kelly, í her­kirkju­g­arðinum í Arlingt­on. AFP

Fyr­ir vikið var Kelly líka mik­il­væg­ur liður í þeim kosn­ingalof­orðum Trumps að reisa múr á landa­mær­um Banda­ríkj­anna og Mexí­kó, að senda óskráða inn­flytj­end­ur úr landi og herða vega­bréfa­eft­ir­lit í leit að ís­lömsk­um öfga­sinn­um.

Missti son sinn í bar­daga

AFP seg­ir Kelly líka vera ná­inn Jim Matt­is, varn­ar­málaráðherra Banda­ríkj­anna. Var hann raun­ar nán­asti aðstoðarmaður Matt­is í Írakstríðinu, í árás­inni á Bagdad árið 2003.

Sú reynsla að hafa misst son sinn í bar­daga er líka sögð hafa mótað hann, en Robert Michael Kelly sem einnig var í sjó­hern­um lést í bar­daga í Af­gan­ist­an 2010.

Kelly er bor­inn og barn­fædd­ur Bost­on­búi og skráði sig í her­inn þegar hann var tví­tug­ur. Hann var tvö ár fót­gönguliði, en yf­ir­gaf þá her­inn og fór í há­skóla.

Reis hratt upp met­orðastig­ann

Eft­ir að hann út­skrifaðist skráði hann sig í her­inn á ný og reis nú hratt upp met­orðastig­ann. Hann var m.a. sér­stak­ur tengiliður sjó­hers­ins við Banda­ríkjaþing á tí­unda­ára­tug síðustu ald­ar og var um tíma sér­stak­ur aðstoðarmaður yf­ir­manns Banda­ríkja­hers í Evr­ópu.

Kelly tók þátt í Íraks­stríðinu líkt og áður sagði, þar sem hann þjónaði und­ir Matt­is og áður en hann fór á eft­ir­laun í janú­ar í fyrra hafði hann hlotið fjór­ar stjörn­ur.

Joe Manchin, öld­unga­deildaþingmaður demó­krata, sagði í viðtali á CNN í kvöld að Kelly væri vel liðinn af báðum flokk­um. Spurður hvort hann væri rétti maður­inn til að koma reglu á starfs­manna­mál Hvíta húss­ins svaraði hann: „Ef hers­höfðingi get­ur það ekki, þá veit ég ekki hver get­ur það. Hann mun ekki sætta sig við neina vit­leysu.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert