Köstuðu stólum í árásarmanninn

Lögregla og tæknideild að störfum á vettvangi árásarinnar. Maðurinn myrti …
Lögregla og tæknideild að störfum á vettvangi árásarinnar. Maðurinn myrti einn og særði nokkra með hnífi. AFP

Karlmaður sem varð einum að bana og særði fleiri í nágrenni stórmarkaðar í Hamborg í dag reyndi að flýja af vettvangi að árásinni lokinni. Það voru hins vegar vegfarendur og vitni að árásinni sem eltu hann uppi og felldu til jarðar.

„Fólk hljóp á eftir árásarmanninum og kastaði í hann stólum,“ sagði hin 18 ára Shaylin Röttmer við þýsku ríkisfréttastofuna DPA.  

Lögregla hefur staðfest að maðurinn hafi verið yfirbugaður af vitnum að árásinni.

Árásin átti sér stað á annatíma á horni verslunargatnanna Fuhls­büttler- og Her­mann-Kauff­mann-götu. Maðurinn er sagður hafa arkað inn í stórmarkaðinn með stóran hníf í hendi. „Ég hélt ég væri stödd í hryllingsmynd. Ég hélt að hann myndi drepa mig,“ sagði eitt vitnanna við NTV-sjónvarpsstöðina.

„Þegar hann hljóp út ... hélt hann höndum á loft og hrópaði „Allahu Akbar“,“ bætti hún við.

Er út á götuna var komið stakk maðurinn unga stúlku með hnífi. „Hann hélt hnífi á lofti og hrópaði „Allahu Akbar“ í tvígang,“ sagði Remo Pollio í viðtali við DPA.

Lögregla hefur ekki viljað staðfesta að maðurinn hafi ákallað Allah, en á twittersíðu lög­regl­unn­ar í Hamborg fyrr í dag var greint frá því að hann hefði verið hand­tek­inn vegna árásarinnar en of snemmt væri að segja til um hvað honum hefði gengið til.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert