Þýska tímaritið Der Spiegel hefur fjarlægt bókina Finis Germania af metsölulista sínum vegna þess að hún er talin innihalda efni sem er „öfgahægrisinnað, andgyðinglegt og hvetji til sögulegrar endurskoðunar.“
Finis Germania samanstendur af kenningum sagnfræðingsins Rolf Peter Sieferle heitins um stöðu Þýskalands, þar á meðal afstöðu þess til helfararinnar. Í henni segir Sieferle meðal annars að Auschwitz sé goðsögn og sakar gyðinga um að leggja eigin sektarkennd á þýsku þjóðina.
Bókin situr nú á toppi metsölulista Amazon.de og lenti í mánuðinum í sjötta sæti metsölulista Der Spiegel eftir að starfsmaður í hópi dómara sem velur bækur á listann mældi með henni.
Í vikunni hvarf bókin hins vegar af listanum og hafa margir bóksalar fylgt í kjölfarið og tekið bókina úr gluggum sínum. Þetta kemur fram í frétt The Guardian.
Jo Glanville, forstöðumaður English PEN sem berst fyrir tjáningarfrelsi, gagnrýndi ákvörðunina og sagði hana vera vandræðalega fyrir tímaritið.
„Með því að fjarlægja bókina [af metsölulistanum] er verið að grafa undan valdi og mannorði tímaritsins. Ritskoðun mun aldrei vera árangursrík aðferð til þess að takast á við íhaldssemi.“