Tveir ráðherrar í minnihlutastjórn Jafnaðarmannaflokksins í Svíþjóð létu af embætti í gær eftir að stjórnarandstaðan lagði fram vantrauststillögu gegn þeim og varnarmálaráðherranum Peter Hultqvist. Ráðherrarnir tveir sögðu af sér vegna frétta um tæknimenn fyrirtækja í öðrum löndum hefðu haft aðgang að tölvugögnum um milljónir Svía og sænskum ríkisleyndarmálum.
Vangaveltur höfðu verið um að Stefan Löfven forsætisráðherra kynni að segja af sér og boða til kosninga vegna málsins en hann ákvað að gera það ekki. Hann sagði að Hanna Johannsson, ráðherra innviðamála, og Anders Ygeman innanríkisráðherra myndu láta af embætti. Ygeman hefur verið þungavigtarmaður í Jafnaðarmannaflokknum og var álitinn líklegru til að verða formaður hans þegar fram liðu stundir.
Forsætisráðherrann ögraði hins vegar stjórnarandstöðunni með því að halda Peter Hultqvist í varnarmálaráðuneytinu.
Stefan Löfven kvaðst vera staðráðinn í því að gegna forsætisráðherraembættinu til loka kjörtímabilsins á næsta ári. „Ég hef engin áform um að valda pólitískri kreppu í Svíðþjóð,“ sagði hann.
Göran Eriksson, stjórnmálaskýrandi Svenska Dagbladet, sagði að Löfven hefði getað sagt af sér og boðað til kosninga eða hætt á að þingið samþykki vantrauststillögu gegn ráðherrunum þremur. Hann hefði þó ákveðið að standa með varnarmálaráðherranum í von um að hafa betur í deilunni við stjórnarandstöðuna.
Eriksson sagði að vantrauststillaga stjórnarandstöðunnar gegn ráðherrunum þremur væri einstök í stjórnmálasögu Svíþjóðar. Karin Eriksson, blaðamaður Dagens Nyheter, segir málið vera mesta pólitíska vanda sem Löfven hafi staðið frammi fyrir frá því að hann myndaði minnihlutastjórnina árið 2014 með Umhverfisflokknum.
Fjórir borgaralegri flokkar ákváðu í fyrradag að leggja fram vantrauststillöguna gegn ráðherrunum þremur með stuðningi þjóðernisflokksins Svíþjóðardemókratanna. Leiðtogar borgaralegu flokkanna fjögurra sögðust í gær ætla að halda kröfunni um afsögn Hultqvist varnarmálaráðherra til streitu. Jimmy Åkesson, leiðtogi Svíþjóðardemókratanna, sagði að varnarmálaráðherrann þyrfti að segja af sér.
Borgaralegu flokkarnir fjórir, Hægriflokkurinn (Moderatarna), Miðflokkurinn, Frjálslyndi flokkurinn og Kristilegir demókratar, sögðust vera tilbúnir að mynda nýja ríkisstjórn. Anni Lööf, leiðtogi Miðflokksins, hefur þó sagt að ekki komi til greina að mynda stjórn með Svíþjóðardemókrötum.
Skoðanakannanir benda til þess að Svíþjóðardemókratarnir myndu stórauka fylgi sitt ef kosið væri nú og þeir virðast vera eini flokkurinn sem er mjög áfram um að kosningum verði flýtt. Bandalag borgaralegu flokkanna fjögurra gæti goldið afhroð því að aðeins einn þeirra, Miðflokkurinn, stendur vel að vígi, ef marka má kannanirnar. Hægriflokkurinn hefur tapað miklu fylgi og svo gæti farið að Kristilegir demókratar fengju ekkert þingsæti.
Nýjasta könnunin, gerð 14. til 19. júní, bendir til þess að Svíþjóðardemókratarnir geti orðið stærsti flokkurinn með 26,9% fylgi og bæti við sig tæpum 14 prósentustigum frá síðustu kosningum 14. september 2014. Líklegt er því að flestir flokkanna vilji forðast það að kosningum verði flýtt.
Jafnaðarmannaflokkurinn mælist með 22,4% fylgi, en hann var stærstur í síðustu kosningum með 31% atkvæða. Forskot Svíþjóðardemókratanna er þannig 4,5 prósentustig og yfir vikmörkum.
Könnunin er mikið áhyggjuefni fyrir hægriflokkinn því að hún bendir til þess að fylgi hans hafi minnkað í 12,7% úr 23,3% frá síðustu kosningum. Flokkurinn mælist með helmingi minna fylgi en Svíþjóðardemókratar og aðeins 1,1 prósentustigi meira en Miðflokkurinn sem er með 11,6%
Ráðherrarnir tveir viku úr embætti vegna hneykslismála sem á rætur að rekja til útvistunar viðhalds á tölvukerfum sem varð til þess að tæknimenn fyrirtækja í Tékklandi og Rúmeníu fengu aðgang að tölvugögnunum. Sænskir fjölmiðlar segja að mennirnir kynnu m.a. að hafa haft aðgang að upplýsingum um starfsmenn öryggislögreglu Svía og hermenn og fleiri gögnum sem varði öryggi landsins. Yfirvöld segja að ekki sé vitað hvort gögnin hafi verið misnotuð.
Auk ráðherranna tveggja sem viku lét Gabriel Wikström af embætti heilbrigðisráðherra, en af öðrum ástæðum. Morgan Johansson tekur við embætti innanríkisráðherra og verður áfram dómsmálaráðherra. Tomas Eneroth verður ráðherra innviðamála. Annika Strandhall verður félagsmálaráðherra og Helene Fritzon ráðherra innflytjendamála.