Handteknir fyrir hetjuboli

Tyrkneska lögreglan vísar hér fólk í stuttermabolum með áletruninni Hero …
Tyrkneska lögreglan vísar hér fólk í stuttermabolum með áletruninni Hero inn í lögreglubíl. AFP

Rúmlega 20 manns hafa verið handteknir af öryggissveitum í Tyrklandi fyrir að klæðast stuttermabol með áletruninni HERO, eða Hetja, í hástöfum.

Fréttastofan CNN fjallar um málið og segir að um miðjan júlímánuð hafi komið til upplausnar í dómsal í suðvesturhluta Tyrklands, þegar uppgjafahermaðurinn Gochan Guclu mætti fyrir réttinn í hvítum stuttermabol með hetjuáletruninni. Guclu er einn þeirra sem sakaðir hafa verið um aðild að misheppnuðu valdaráni í Tyrklandi síðasta sumar og var meðferð málsins frestað vegna upplausnarástandsins.  

Guclu er líka sakaður um að tilheyra samtökum sem tyrknesk stjórnvöld kalla Hryðjuverkasamtök Fethullah Gulen (FETO). Þau hafa frá upphafi sakað klerkinn Gulen, sem er í sjálfskipaðri útlegð í Bandaríkjunum, um að standa að baki tilræðinu og að stuðningsmenn hans hafi komið þar að. Gulen hefur alfarið neitað aðild að málinu.

Í kjölfar uppreisnarástandsins sem skapaðist í dómsalnum var rannsókn hafin á Guclu og fatavali hans.

Fékk bolinn sendan í fangelsið frá systur sinni

Í ljós kom að systir Guclu hafði sent honum stuttermabolinn á meðan hann sat í gæsluvarðhaldi og að yfirmenn fangelsisins höfðu leyft honum að klæðast bolnum, að sögn tyrknesku ríkisfréttastofunnar Anadolu.

Segir fréttastofan saksóknara nú vera með systur Guclu til rannsóknar, sem og ríkisstofnunina sem ber ábyrgð á fangelsinu þar sem Guclu er í haldi.

Daginn eftir dómtökuna í máli Guclu hópuðust stuðningsmenn Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta saman fyrir utan dómshúsið þar sem þeir hengdu upp í snöru annan hvítan stuttermabol og var sá merktur TRAITOR, eða svikari.

Stuttermabolirnir með hetjuáletruninni voru upphaflega seldir í tyrkneskum tískuverslunum víðs vegar um Tyrkland. Fataframleiðandinn hefur nú hætt framleiðslu á þessum umdeilda bol að sögn tyrkneska blaðsins Cumhuriyet.

„Vildum bara vera eins“

Rúmlega 20 manns hafa nú verið handteknir í Tyrklandi fyrir að klæðast bolnum að sögn tyrkneskra fjölmiðla. Flestir hafa verið látnir lausir aftur, en að minnsta kosti einn var hnepptur í varðhald eftir að hann reyndi að fara inn í dómsal íklæddur bolnum.

Þá voru tveir háskólanemar sem klæddust bolunum handteknir og sögðu þeir lögreglu að þeim hefði ekki verið kunnugt um tengsli bolanna við FETO-réttarhöldin er þeir keyptu þá.

„Við fylgjumst ekki með fréttum. Við keyptum bolina í verslunarmiðstöð. Við vissum ekki að þeir væru bannvara. Við vildum bara vera eins,“ sögðu nemarnir að sögn Anadolu.

Bolabannið utan lagarammans

Óljóst virðist vera hvaða grein tyrkneskra refsilöggjafar á að ná yfir þá sem klæðast bolnum. „Þetta er fullkomlega utan lagarammans,“ sagði lögfræðingurinn Gulan Calvi í samtali við CNN. Það gæti einungis talist glæpur að klæðast bolnum ef hann bæri merki þekktra hryðjuverkasamtaka. Engin slík tengsl væru við hetjubolina.

Bekir Bozdag, dómsmálaráðherra Tyrklands, hefur nú kynnt nýjar reglur sem banna sakborningum að klæðast fatnaði sem ber nokkurn texta í dómsal. Erdogan vill hins vegar ganga enn lengra og mælir með að sérstakur einkennisbúningur verði tekinn upp fyrir sakborninga í FETO-málinu.

„Hér eftir skulum við láta þá klæðast einkennisbúningi eins og þeir gera í Guantanamo,“ sagði Erdogan á fundi með stuðningsmönnum sínum fyrir skemmstu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka