Óþekktir byssumenn réðust inn á heimili William Ruto, varaforseta Kenía, í dag. Tvær vikur eru í forsetakosningar í landinu, þar sem forsetinn Uhuru Kenyatta freistar þess að ná endurkjöri. Mjótt er á munum milli hans og stjórnarandstöðuleiðtogans Raila Odinga.
Ruto var ekki heima þegar árásin átti sér stað en einn sérsveitarmaður slasaðist alvarlega. Árásarmennirnir skutu hann og tóku af honum byssu sem hann bar á sér.
Öryggissveitir vinna að því að tryggja vettvang og kanna hvort árásarmenn leynast enn einhvers staðar á heimilinu, sem er staðsett nærri bænum Eldoret og ku vera nokkuð stórt.
Eldoret liggur 312 km norðvestur af höfuðborginni Nairobi.