Rannsaki dularfullu minnkandi flugvélasætin

Sæti á almennu farrými hafa minnkað úr því að vera …
Sæti á almennu farrými hafa minnkað úr því að vera 89 sm á áttunda áratugnum, niður í að vera 79 sm í flestum flugvélum og jafnvel 71 sm í sumum vélum. AFP

Bandaríska loftferðaeftirlitinu (FAA) hefur verið skipað af alríkisdómara að taka aftur til rannsóknar mál dularfullu minnkandi flugvélasætanna.

Reuters-fréttastofan segir dómarann, Patriciu Millett, hafa skipað eftirlitinu að skoða aftur ásakanir þrýstihópa sem fullyrða að síminnkandi flugvélasæti stefni öryggi flugfarþega í hættu.

Segja stærðina ekki skipta máli

Hafnaði dómarinn þeim rökum FAA að stærð sætanna skipti ekki máli þegar málið snerist um að komast út úr flugvélum á neyðarstund.

„Það er ekkert vit í þessu,“ sagði Millett og líkti rökum eftirlitsins við rannsókn á tannskemmdum sem bara horfði til sykurneyslu þátttakenda en tæki ekki til þess hvort þeir burstuðu tennurnar og notuðu tannþráð.

Hafi meiri áhuga á gróða en öryggi farþega

Sæti í flugvélum hafa hægt og rólega farið minnkandi undanfarna áratugi. Þannig hafa sæti á almennu farrými minnkað úr því að vera 89 cm að meðaltali á áttunda áratugnum niður í að vera 79 cm í flestum flugvélum og jafnvel 71 cm í sumum vélum.

Breidd sætanna hefur sömuleiðis minnkað úr 46 cm niður í 42 cm síðastliðinn áratug.

Flugvélar American Airlines á flugvellinum á Tampa á Flórída. Fótarými …
Flugvélar American Airlines á flugvellinum á Tampa á Flórída. Fótarými í Boeing 737 þotum félagsins á að minnka úr 79 sm niður í 76 sm. AFP

Gagnrýnendur hafa sakað flugfélögin um að hafa meiri áhuga á auknum gróða en að tryggja heilsu og öryggi farþega.

Greg Martin, talsmaður FAA, segir stofnunina hins vegar ekki telja svæðið sem hver farþegi fái til umráða vera öryggismál sem stofnuninni beri að skoða.

Í úrskurði dómstólsins var FAA gert að skoða hvort minni sæti og stærri farþegar gætu haft áhrif á aðgengi að neyðarútgöngum. Stofnunni var ekki gert að skoða áhrif sætanna á þægindi og heilsu farþega.

Þingið skoðar að setja lög á sætisstærð

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings er nú með frumvarp til skoðunar þar sem FAA er gert að setja reglur um lágmarksstærð flugvélasæta og lágmarksbil milli raða í flugvélum til að „tryggja öryggi og heilsu flugfarþega“.

Í síðasta mánuði tilkynnti bandaríska flugfélagið American Airlines að það myndi aðeins minnka fótarými farþega um 2,5 cm í stað 5 cm eins og áður stóð til og verður fótarými í Boeing 737-þotum félagsins þá 76 cm.

Scott Kirby, forstjóri United Airlines, sagði við yfirheyrslur hjá Bandaríkjaþingi í maí að flugfélagið hefði enn ekki ákveðið hvort að það myndi minnka fótarými véla niður í 74 cm.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert