Undirbýr Pence að taka við af Trump?

Donald Trump Bandaríkjaforseti og varaforsetinn Mike Pence. Pence þykir hafa …
Donald Trump Bandaríkjaforseti og varaforsetinn Mike Pence. Pence þykir hafa skapað vissa fjarlægð milli sín og forsetans undanfarið. AFP

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, undirbýr nú eigin innsetningarathöfn sem næsti forseti Bandaríkjanna að sögn eins þingmanna Demókrataflokksins. Segir hún þá Reince Priebus, fyrrverandi starfsmannastjóra Hvíta hússins, og Sean Spicer, fyrrverandi fjölmiðlafulltrúa Hvíta hússins, munu greiða leið Pence. Breska dagblaðið Independent fjallar um málið.

Maxine Waters, þingmaður demókrata fyrir Kaliforníu og harður gagnrýnandi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, tjáði sig um sviptingarnar sem verið hafa í starfsmannaliði forsetans undanfarið á samskiptamiðlinum Twitter.

„Mike Pence er einhvers staðar að undirbúa innsetningarathöfn,“ skrifaði Waters. „Priebus og Spicer munu leiða þá breytingu,“ bætti hún svo við og vísaði þar til síðustu breytinga í starfsliði Trumps.

Segir kynlífslýsingarnar sannar

Forsetinn greindi á föstudag frá því að John Kelly heimavarnarráðherra tæki við af Priebus sem starfsmannastjóri Hvíta hússins og Spicer sagði upp fyrir skömmu í mótmælaskyni við ráðningu Anthonys Scaramuccis sem samskiptastjóra Hvíta hússins.

Tíðar starfsmannabreytingar hjá forsetanum hafa vakið mikið umtal og skreytti blaðið New York Post forsíðu sína á föstudag með forsetanum og núverandi og fyrrverandi samstarfsmönnum í gervi þátttakenda Survivor-raunveruleikaþáttanna.

Forsíða New York Post á föstudag. Þar er starfsliði forsetans …
Forsíða New York Post á föstudag. Þar er starfsliði forsetans still upp eins og þátttakendum í raunveruleikaþættinum Survivor. Skjáskot/New York Post

Waters var einn fyrsti bandaríski stjórnmálamaðurinn sem fullyrti að djarfar kynlífslýsingar Trumps í heimsókn í Rússlandi, sem lýst er í svonefndri „Rússamöppu“, væru „algjörlega sannar“. Í skjalinu er fullyrt að rússneskir ráðamenn búi yfir upplýsingum um fjármál og kynlíf forsetans sem hann myndi síður vilja að kæmust í hámæli.

Waters hefur ítrekað viljað kæra forsetann fyrir embættisglöp. Tveir þingmenn demókrata, þeir Al Green og Brad Sherman, lögðu hinn 12. júlí fram slíka tillögu. Þar fullyrða þeir að Trump hafi hindrað framgang réttvísinnar með því að reka James Comey, forstjóra FBI, meðan á rannsókn hans á meintum afskiptum Rússa af forsetakosningunum fór fram.

Til að tillaga komist í gegnum þingið þarf meirihluti fulltrúadeildar þingsins að samþykkja hana og tveir þriðju þingmanna öldungadeildar þingsins. Ólíklegt þykir að slíkt gerist, þar sem Repúblikanaflokkurinn hefur meirihluta í báðum deildum.

Pence skapar fjarlægð milli sín og forsetans

Independent segir Pence undanfarið hafa skapað vissa fjarlægð milli sín og þeirra hneykslismála sem skekið hafa Hvíta húsið, meðal annars þeirra uppljóstrana að elsti sonur forsetans, Donald Trump yngri, hafi á meðan Trump var í framboði fundað með rússneskum lögfræðingi sem hét honum upplýsingum sem kæmu Hillary Clinton illa.

Varaforsetinn „beinir ekki athygli sinni að frásögnum af herferðinni – sérstaklega ekki frásögnum frá þeim tíma áður en hann tók þátt í kosningaherferðinni“, sagði í yfirlýsingu frá talsmanni Pence skömmu eftir að fréttirnar bárust.

„Donald Trump náði að komast í embætti forseta Bandaríkjanna og ég veit enn ekki hvernig.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert