Lýsa yfir áhyggjum af dalandi lýðræði

Forseti Venesúela, Nicolas Maduro, fagnar hér sigri.
Forseti Venesúela, Nicolas Maduro, fagnar hér sigri. AFP

Evrópusambandið hefur lýst yfir áhyggjum sínum vegna dalandi lýðræðis í Venesúela, eftir umdeildar stjórnlagaþingskosningar þar í landi í gær. Evrópusambandið segist hafa efasemdir um að það geti viðurkennt niðurstöður kosninganna, þar sem Nicolas Maduro, forseti landsins, fagnaði sigri. AFP fréttastofan greinir frá.

Nýtt stjórn­lagaþing mun hafa umboð til að end­ur­skrifa stjórn­ar­skrá lands­ins og hunsa þingið sem stjórn­ar­and­stæðing­ar stýra. 

Maduro hefur sjálfur sagt að þetta sé eina leiðin til að koma á friði í kjöl­far átaka, mót­mæla og póli­tískr­ar patt­stöðu sem hef­ur staðið yfir mánuðum sam­an. And­stæðing­ar hans sjá þetta aft­ur á móti sem leið fyr­ir for­set­ann að auka völd­in. 

„Atburðir síðasta sólarhrings hafa aukið áhyggjur ESB á því að lýðræði í Venesúela fari dalandi,“ sagði Mina Andreeva, talsmaður framkvæmdastjórnar ESB í tilkynningu. „Framkvæmdastjórnin efast jafnframt um að geta viðurkennt niðurstöður kosninganna. Stjórnlagaþing kosið við vafasamar og ofbeldisfullar aðstæður getur ekki leyst neinn vanda,“ sagði jafnframt í tilkynningunni.

ESB fordæmir jafnframt óviðeigandi og óþarflega harkalega framgöngu öryggissveita landsins við að halda aftur af mótmælendum.

Forseti Evrópuþingsins, Antonio Tajani, fordæmir kosningarnar og segir niðurstöðurnar rangar og ólögmætar. „Það er sorgardagur fyrir lýðræði í Venesúela, í latnesku Ameríku og í heiminum öllum, þegar alþjóðasamningar, sem og stjórnarskrá landsins er virt að vettugi, og það sem mestu máli skiptir, vilji fólksins,“ sagði Tajani eftir samtöl við stjórnarandstæðinga.

Starfs­menn kjör­stjórn­ar í Venesúela segja að kosn­ingaþátt­taka í um­deild­um stjórn­lagaþings­kosn­ing­um hafi verið 41,5%. Stjórn­ar­and­stæðing­ar telja að þátt­tak­an hafi verið mun minni. Þeir segja að 88% kjós­enda hafi setið hjá og neitað að viður­kenna kosn­ing­arn­ar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert