Scaramucci hættur sem samskiptastjóri

Anthony Scaramucci gegndi starfi samskiptastjóra Hvíta hússins í 10 daga.
Anthony Scaramucci gegndi starfi samskiptastjóra Hvíta hússins í 10 daga. AFP

Anthony Scaramucci sem nýlega tók við embætti samskiptastjóra Hvíta hússins er nú hættur störfum, eftir tíu daga í embætti.

Frá þessu greindu bandarískir fjölmiðlar nú fyrir skemmstu.

New York Times greinir frá því að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi ákveðið að reka Scaramucci eftur fúkyrðaflauminn sem hann sendi ýmsum hátt settum starfsmönnum Hvíta hússins fyrir helgi. Hefur blaðið þetta eftir þremur heimildamönnum sem þekkja vel til.

Ekki eru nema 10 dagar frá því að Trump tilkynnti um ráðningu Scaramucci, en hann hefur aukið verulega á óróa meðal starfsmanna og segir New York Times, óreiðu í starfsmannamálum þó hafa verið töluverða fyrir. Ráðning Scaramucci leiddi m.a. til þess að Sean Spicer sagði af sér sem fjölmiðlafulltrúi forsetans og Reince Priebus, sem var starfsmannastjóri Hvíta hússins, var látinn taka pokann sinn.

New York Times segir ákvörðunina um að Scaramucci verði fjarlægður úr embætti samskiptastjóra koma að kröfu John Kelly, fyrrum heimavarnarráðherra sem Trump skipaði starfsmannastjóra á föstudag.

Scaramucci hafði stært sig af því að hann heyrði undir engan nema forsetann, en blaðið segir Kelly hafa gert starfsmönnum skýrt í dag að það sé hann, enginn annar, sem fari með stjórn starfsmannamála.

Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvort Scaramucci muni fá aðra stöðu í Hvíta húsinu, eða hvort hann sé þar með hættur störfum fyrir forsetann.

„Anthony Scaramucci mun hætta störfum sem samskiptastjóri Hvíta hússins," segir í yfirlýsingu sem Hvíta húsið sendi frá sér í kvöld. „Scaramucci taldi best að gefa starfsmannastjóranum hreint borð og tækifæri til að byggja upp sitt eigið teymi. Við óskum honum alls hins besta.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka