Sama fólk og hvatti til þess að Anthony Scaramucci yrði ráðinn samskiptastjóri Hvíta hússins fyrir nokkrum dögum varð til þess að hann var rekinn úr starfi í gær, sama dag og nýr starfsmannastjóri tók við embætti.
Fjölmiðlar vestanhafs segjast hafa heimildir fyrir því að ummæli sem Scaramucci lét falla í viðtali við The New Yorker í síðustu viku hafi gert það að verkum að hann naut ekki lengur trausts forsetans. Í viðtalinu sagði hann hluti sem fóru til að mynda verulega fyrir brjóstið á forsetafrúnni, Melaniu Trump, og einnig Ivönku Trump, dóttur forsetans, sem hafði áður stutt Scaramucci í embættið.
Í gær tók John Kelly, fyrrverandi hershöfðingi í bandaríska landgönguliðinu, við embætti starfsmannastjóra Hvíta hússins en starfið er eitt það valdamesta í starfsliði Bandaríkjaforseta hverju sinni. Heimildir NBC herma m.a. að bæði Ivanka Trump, dóttir Donalds Trump, og eiginmaður hennar, Jared Kushner, hafi stutt Kelly í þeirri ákvörðun sinni að segja Scaramucci upp störfum. Hjónin eru meðal nánustu ráðgjafa forsetans.
Heimildir herma að Scaramucci hafi litið stórt á sig allt frá því að hann tók við starfinu fyrir aðeins 12 dögum. Hann hafi ofmetið það traust sem forsetinn bæri til hans og talið sig geta gert nánast það sem honum sýndist án þess að forsetanum mislíkaði. En annað átti eftir að koma á daginn.
Eftir að viðtalið í The New Yorker var birt og hafði vakið hörð viðbrögð var Scaramucci enn fullur sjálfstrausts og sagði alveg fram á sunnudagskvöld, m.a. í viðtali við MSNBC, að hann teldi að málið væri stormur í vatnsglasi sem myndi hverfa fljótt.
En þar misreiknaði Scaramucci sig herfilega því strax á mánudagsmorgun, er John Kelly tók við starfi starfsmannastjóra, lét hann það verða sitt fyrsta verk að reka Scaramucci. Í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu var þó sagt að Scaramucci hefði sagt upp sjálfur. Hann hefði viljað gefa Kelly vinnufrið. Scaramucci var aðeins tíu daga í starfi samskiptastjóra og slær þar með met: Enginn hefur áður sinnt því starfi jafn stutt.
Í viðtalinu við New Yorker lét Scaramucci blótsyrðin fjúka ítrekað og sagði óhikað skoðun sína á ýmsum núverandi og fyrrverandi samstarfsmönnum Trumps. Þó að Trump sé sjálfur þekktur fyrir að kalla ekki allt ömmu sína í þeim efnum fóru ummæli samskiptastjórans verulega fyrir brjóstið á ættingjum og samstarfsfólki hans. Í frétt New York Times segir að Trump og fjölskylda hans hafi því lagt blessun sína yfir brottreksturinn.
Sarah Sanders, blaðafulltrúi Hvíta hússins, sagði á blaðamannafundi í gær að forsetanum hefði þótt ummæli Scaramucci óviðeigandi fyrir mann í hans stöðu. Hann hafi ekki viljað íþyngja Kelly með því að hafa samskiptastjórann sér við hlið.
Verðbréfabraskarinn og auðmaðurinn Scaramucci gaf ákveðinn tón er hann hélt sinn fyrsta blaðamannafund í Hvíta húsinu fyrir rúmri viku. Hann virtist ætla að nálgast blaðamennina á annan hátt en fyrirrennarar hans í starfi og sendi þeim m.a. fingurkoss er hann sleit fundinum. Með ummælum sínum síðar varð Scaramucci svo til þess að bæði Sean Spicer, blaðafulltrúi, og Reince Priebus, starfsmannastjóri, létu af störfum. Sagði hann Priebus vera brjálæðing sem hefði lekið viðkvæmum upplýsingum í fjölmiðla.
Starfsmannastjóri Hvíta hússins ber mikla ábyrgð og hefur stóru hlutverki að gegna. Hann á meðal annars að sjá til þess að engar óþægilegar upplýsingar leki í fjölmiðla. John Kelly stóð þegar í gær frammi fyrir slíku vandamáli og lekinn snéri að honum sjálfum. Samkvæmt heimildum er því haldið fram að Kelly, sem áður gegndi starfi heimavarnarráðherra í stjórn Trumps, hefði verið miður sín er forsetinn rak James B. Comey, forstjóra alríkislögreglunnar, FBI. Á hann að hafa hringt í Comey og sagst vera að íhuga að segja af sér vegna málsins.
Samkvæmt frétt New York Times hélt Kelly fund með starfsfólki Hvíta hússins strax í gær og sagðist hafa heimild forsetans til þess að koma á aga í húsinu og geta rekið og ráðið í stöður eftir því sem hann teldi þurfa.
Hann hefur reynsluna úr hernum og er sagður ætla að nota hana óspart í sínu starfi.
Nú er þess beðið með eftirvæntingu hver mun fylla skarð Scaramuccis. Donald Trump hefur fellt enn einn dómínó-kubbinn og þeim leik er ekki enn lokið.