Nýr leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Nýja-Sjálandi, hefur ítrekað verið spurður út í mögulegar barneignir þá tvo daga sem hann hefur gegnt starfi formanns Verkamannaflokksins.
Jacinda Ardern, sem er 37 ára gömul og tók nýverið við sem formaður Verkamannaflokksins, var í sjónvarpsviðtali í dag spurð um hvort barn myndi hafa áhrif á möguleika hennar á að gegna starfi forsætisráðherra.
Ardern, sem hefur gegnt formannsstarfinu í einn dag, hefur þegar verið spurð út í barneignir í þremur viðtölum. Hvort hún ætli sér að eignast börn og hvaða áhrif það geti haft á störf hennar.
Ardern segir að flestar konur sem ná árangri í starfi standi frammi fyrir þessum spurningum og hún hafi ekki tekið neina ákvörðun um þetta. Hún stefni á líkt og flestar aðrar konur að láta líf sitt ganga upp. En þegar henni var tjáð af sömu sjónvarpsstöð að Nýsjálendingar hefðu rétt á að fá að vita hvort hún ætlaði sér að eignast börn áður en þeir kysu hana sem forsætisráðherra.
Svaraði Ardern því til að konur eigi rétt á því að vera metnar í starfi af getu sinni ekki hvort þær hafi hug á að eignast börn.
„Það er algjörlega óásættanlegt að árið 2017 þurfi konur að svara spurningum sem þessum á starfsvettvangi sínum,“ sagði hún í viðtalinu í dag. „Það er ákvörðun konunnar hvort hún ætlar að eignast börn eður ei. Það á ekki að segja til fyrirfram um hvort þær fái starf eða ekki.“
Viðbrögð á samfélagsmiðlum létu ekki á sér standa og sögðu margir að karlar fengju ekki sambærilegar spurningar. Það sé komi einfaldlega engum við hvort konur ætli sér að eigast börn eða ekki. Jafnframt er bent á það á samfélagsmiðlum að það sé brot á mannréttindalögum að spyrja slíkra spurninga.
Einn þeirra sem gagnrýndi spurningar í garð Ardern er forsætisráðherra landsins, Bill English, en Ardern vonast til þess að fella hann úr embætti í kosningum sem fram fara 23. september. Hann segir að fólk eigi ekki að þurfa spurningum sem þessum enda séu barneignir einkamál hvers og eins en English er sex barna faðir.