Hinrik prins vill ekki láta jarðsetja sig við hlið eiginkonu sinnar Margrétar Danadrottningar þegar sá tími rennur upp.
Ákvörðun hans fylgir ekki hefðum dönsku konungsfjölskyldunnar.
Hinrik, sem er 83 ára, hefur lengi lýst yfir óánægju sinni vegna aukahlutverks síns innan konungsfjölskyldunnar. Hann segist ekki hafa staðið jafnfætis drottningunni í lífinu og því eigi hann ekki heldur að gera það í dauðanum.
Drottningin hefur skilning á ákvörðun hans, að sögn Lene Balleby, upplýsingafulltrúa konungsfjölskyldunnar.
Hinrik hefur lengi verið ósáttur við að hafa ekki fengið titilinn kóngur eftir að Margrét varð drottning árið 1972.