Kviðdómur rannsakar afskipti Rússa

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Robert Mueller, sérstakur saksóknari í rannsókn á afskiptum Rússa af bandarísku forsetakosningunum á síðasta ári, hefur fengið sérstakan kviðdóm til að rannsaka málið enn frekar.

Í framhaldinu ákveður kviðdómurinn hvort lögð verður fram ákæra í málinu.

Kviðdómurinn hóf störf fyrir nokkrum vikum og talið er að rannsókn hans muni standa yfir í einhverja mánuði.

Þetta kemur fram í frétt The Wall Street Journal.

Slæm tíðindi fyrir Trump

Rannsókninni á afskiptum Rússa af kosningunum hefur því vaxið fiskur um hrygg. Þetta eru slæm tíðindi fyrir Donald Trump Bandaríkjaforseta.

Kviðdómurinn getur veitt Mueller, sem er fyrrverandi yfirmaður bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, leyfi til að kalla til vitni í málinu.

„Ferlið er að stigmagnast,“ sagði Bradley Moss, lögmaður í þjóðaröryggismálum við AFP.

„Þú færð ekki kviðdóm til að koma saman nema þú hafi fundið næg sönnunargögn í rannsókn þinni sem þér finnst brjóta að minnsta kosti ein, ef ekki fleiri lög,“ sagði hann.

„Ef ákæra verður lögð fram er næsta skref að handtaka viðkomandi.“

Robert Mueller.
Robert Mueller. AFP

Ty Cobb, lögfræðingur forsetans, sagði að Hvíta húsið muni halda áfram að aðstoða Mueller við rannsóknina.

Sara Huckabee Sanders sagði að ólíklegt væri að forsetinn sjálfur verði rannsakaður.

„Jim Comey, fyrrverandi yfirmaður FBI, sagði þrívegis að engin rannsókn stæði yfir á forsetanum og við sjáum enga ástæðu til að trúa að það hafi breyst,“ sagði hún.

Fjármálin einnig rannsökuð

Trump hefur ítrekað neitað því að hafa verið í leynimakki með Rússum og segist hann vera fórnarlamb „nornaveiða“ og „falskra frétta“.

Hvíta húsið hefur engu að síður viðurkennt að eldsti sonur Trumps, Donald Jr., tengdasonur hans Jared Kushner og fyrrverandi ráðgjafi í kosningaherferð hans, Paul Manafort, hafi hitt rússneskan lögfræðing með tengsl við rússnesku ríkisstjórnina fyrir kosningarnar í von um að fá upplýsingar sem kæmu sér illa fyrir Hillary Clinton, sem þá var einnig í forsetaframboði.

Mueller er einnig sagður vera að rannsaka fjármál aðila sem tengjast Trump en sú rannsókn tengist hvorki Rússum né kosningunum, að sögn CNN.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka