Samband Bandaríkjanna og Rússlands er „hættulega slæmt“ að sögn Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Trump undirritaði í gær lög sem fela í sér ýmiss konar refsiaðgerðir gegn Rússum.
Öldungadeild Bandaríkjaþings hafði áður samþykkt að beita refsiaðgerðunum vegna afskipta Rússa af bandarísku forsetakosningunum á síðasta ári og fyrir að hafa innlimað Krímskaga sem var áður undir yfirráðum Úkraínu.
Trump var mótfallinn aðgerðunum og börðust aðstoðarmenn hans gegn því að þær yrðu samþykktar á þinginu, án árangurs.
„Samband okkar við Rússa er verra en nokkru sinni og hættulega slæmt,“ skrifaði Trump á Twitter í dag. „Þið getið þakkað þinginu, sama fólki og getur ekki einu sinni gefið okkur HCare!“
Our relationship with Russia is at an all-time & very dangerous low. You can thank Congress, the same people that can't even give us HCare!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) August 3, 2017
Refsiaðgerðunum er að hluta ætlað að refsa Rússum fyrir innlimun Krímskaga árið 2014, grunur um afskipti rússneskra ráðamanna af forsetakosningunum í Bandaríkjunum á síðasta ári hefur þó einnig haft áhrif.
Utanríkisráðuneyti Rússlands segir að refsiaðgerðirnar séu hættulegar og beri vott um skammsýni.
Í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneytinu kemur fram að aðgerðirnar geti dregið úr stöðugleika í heiminum en Rússland og Bandaríkin beri sérstaka ábyrgð á því að halda þeim stöðugleika.
Þar segir einnig að aðgerðirnar séu „fjandsamlegar“ og að Rússland áskili sér rétt til að svara þeim.