Kviðdómur hefur dæmt fyrrverandi vogunarsjóðsstjóra og forstjóra lyfjafyrirtækisins Turing Pharmaceuticals, Martin Shkrelis, sekan fyrir stórfelld fjársvik. Hann var hins vegar sýknaður af alvarlegustu ákæruliðunum um samsæri með að hafa sett upp svikamyllu fyrir fjárfesta.
Shkreli komst í fréttirnar þegar hann keypti réttinn á alnæmislyfinu Daraprim og hækkaði verðið fimmtíufalt í einni svipan. Síðan þá hefur hann verið þekktur sem „hataðasti maður Bandaríkjanna.“
Shkreli var ánægður með niðurstöðuna þegar hann ræddi við fjölmiðla eftir dómsuppkvaðninguna í dag. Sagði hann að um væri að ræða nornaveiðar af hálfu ákæruvaldsins og þó þeir hafi fundið eitt eða tvö atriði sem væru smávægileg væri hann sýknaður af því alvarlegasta.
Ef Shkreli hefði verið fundinn sekur um að hafa stolið 11 milljónum dala af hlutabréfum í lyfjafyrirtækinu Retrophin, sem hann stofnaði áður, til að greiða fjárfestum sem höfðu tapað fjármunum hjá vogunarsjóðinum sem Shkreli stjórnaði, hefði hann getað átt yfir höfði sér allt að 20 ára fangelsi.