Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Charlottesville í Virginíuríki í Bandaríkjunum vegna átaka á milli hægri þjóðernissinna og andstæðinga þeirra. Til átakanna kom vegna fyrirhugaðs fjöldafundar þjóðernissinna í borginni.
Óeirðarlögreglan reynir nú að ná tökum á ástandinu, en einhverjir hafa slasast á átökunum, samkvæmt frétt Guardian.
Terry McAuliffe, ríkisstjóri í Virginíu, hefur lýst yfir neyðarástandi á meðan lögreglan reynir að ná tökum ástandinu. Lögreglan hefur lýst því yfir að fjöldafundurinn sé ólöglegur.
Til átaka kom einnig á milli hópanna í gær þegar hundruð þjóðernissinna gengu fylktu liði með kyndla að háskólanum í Virginíu þar sem þeir mótmæltu því að stytta af Robert E. Lee, hershöfðingja Suðurríkjanna, yrði fjarlægð.