Trump segist fordæma hatur og ofbeldi

Samkoma þjóðernissinna í Charlottesville í Virginíu endaði með banvænum átökum í dag eftir að bifreið var ekið inn í mannfjöldann, þar sem þegar áttu í rimmu þjóðernissinnar og þeir sem þangað komu til að mótmæla áróðri þeirra.

Hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti lýst yfir fordæmingu sinni á „hatri, ofstæki og ofbeldi á mörgum hliðum,“ í kjölfarið.

Ríkisstjóri Virginíu, Terry McAuliffe, hafði þegar lýst yfir neyðarástandi þegar dökkum fólksbíl var ekið snögglega inn í hóp mótmælenda samkomunnar.

Einn lést við áreksturinn og 19 særðust, samkvæmt lögregluyfirvöldum í borginni. Þá hafa 15 til viðbótar slasast í átökunum.

Hundruð manna höfðu komið til borgarinnar til að annað hvort sækja samkomuna eða mótmæla henni. Átök voru fljót að brjótast út jafnvel þótt óeirðalögregla og þjóðvarnarliðið hefðu fjölmennt í miðborgina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert