Heimamaður í Dresden í Þýskalandi réðst á drukkinn Bandaríkjamann sem ítrekað heilsaði að sið nasista þar sem hann gekk út af bar í austurhluta borgarinnar. Atvikið átti sér stað á laugardagsmorgun. AFP-fréttastofan greinir frá.
Maðurinn, sem er 41 árs, slasaðist lítillega í árásinni. Í yfirlýsingu frá lögreglunni segir að hann hafi verið áberandi ölvaður og að ókunnugur maður hafi veist að honum og lamið hann með þeim afleiðingum að hann fékk lítilsháttar áverka. Árásarmaðurinn er enn ófundinn.
Bandaríkjamaðurinn verður hugsanlega ákærður fyrir að brjóta lög sem banna nasistakveðjur og notkun á hakakrossinum, en þau voru sett við lok síðari heimsstyrjaldarinnar.