Að minnsta kosti þrír eru særðir, þar af tveir lífshættulega, eftir að maður hóf skothríð í samkomusal í Malmö seint í nótt. Um 70 manns voru saman komnir í mannfögnuði í húsinu þegar skotunum var hleypt af, samkvæmt umfjöllun sænska ríkissjónvarpsins, SVT.
Er þar hermt eftir vitnum að ringulreið hafi skapast þegar fólk reyndi að flýja salinn í skothríðinni.
Samkomusalurinn er í miðborg Malmö, á svæði þar sem ofbeldi er ekki sjaldgæf sjón.
„Bara hér [í samkomusalnum], varð alvarleg skotárás fyrr á árinu þegar ungur maður var skotinn,“ segir Mikael Nilsson, fréttamaður SVT sem er á staðnum.