Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, var líka að fordæma hvíta þjóðernissinna, Ku Klux Klan og nýnasista, þegar hann fordæmdi hatur, ofstæki og ofbeldi frá mörgum hliðum í kjölfar átakanna í Charlottesville í Virginíu sem brutust út á milli hvítra þjóðernissinna og andstæðinga þeirra.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hvíta húsinu. Athygli vakti að Trump minntist ekkert á hvíta þjóðernissinna heldur fordæmdi hatur og ofbeldi almennt. Hvítir þjóðernissinnar fjölmenntu til Charlottesville á föstudag vegna boðaðs fjöldafundar sem átti að fara fram í gær. Margir úr hópi hvítra þjóðernissinna hafa lýst yfir stuðningi við Trump og hans stefnu.
„Forsetinn sagði mjög skýrt í yfirlýsingu sinni í gær að hann fordæmdi allar gerðir ofbeldis, ofstækis og haturs. Auðvitað falla hvítir þjóðernissinnar, Ku Klux Klan, nýnasistar og aðrir öfgahópar undir það,“ sagði talsmaður Hvíta hússins í tilkynningu. AFP-fréttastofan greinir frá.