Klukknahljómur Big Ben í London mun óma í síðasta sinn um miðjan dag í dag. Turnklukkunum verður svo ekki hringt reglulega á ný fyrr en árið 2021.
Miklar viðgerðir standa yfir á þessu sögufræga kennileiti Lundúnaborgar. Klukkurnar í Big Ben hafa slegið á klukkutímafresti í 157 ár en þó með örfáum hléum. Það síðasta var gert árið 2007 og þar á undan þögnuðu þær í nokkra mánuði á árunum 1983-1985.
Í frétt BBC segir að aftengja verði klukkurnar nú til að skapa heilsusamlegt vinnuumhverfi fyrir verkamennina sem eru að hefja viðgerðir á turninum.
Ákveðið hefur verið að tengja klukkurnar aftur í tilefni stórviðburða, s.s. á gamlárskvöld til að hringja inn nýja árið.