Donald Trump Bandaríkjaforseti fordæmdi í dag kynþáttahatur og fór hörðum orðum um samtökin Ku Klux Klan og nýnasista. Mikill þrýstingur hefur verið á Trump að bregðast við í kjölfar samkomu hvítra kynþáttahatara sem fram fór um helgina í Charlottesville í Virginíu-ríki í Bandaríkjunum og lauk með blóðugum átökum.
Forsetinn var gagnrýndur bæði af Demókrötum og Repúblikönum fyrir að bregðast ekki með afgerandi hætti við atburðum helgarinnar. Kona lét lífið og 19 aðrir særðust þegar karlmaður, sem grunaður er um að vera hallur undir nasisma, ók bifreið sinni á hóp fólks sem hélt á lofti mótmælaspjöldum gegn kynþáttahatri.
Samkoman í Charlottesville var haldin til þess að mótmæla áformum borgarinnar að fjarlægja styttu af hershöfðingjanum Robert E. Lee sem fór fyrir her Suðurríkjanna í borgarastyrjöld Bandaríkjanna sem geisaði á árinum 1861-1865. Stríðið hefur oft verið nefnt þrælastríðið þar sem þrælahald viðgekkst í Suðurríkjunum.
„Þeir sem breiða út ofbeldi í nafni þröngsýni vega að kjarna Bandaríkjanna,“ sagði Trump í sjónvarpsávarpi í dag. Sagði hann kynþáttahatur af hinu illa og þeir sem beittu ofbeldi í nafni þess væru glæpamenn og hrottar. Þar á meðal Ku Klux Klan og nýnasistar og aðrir af sama meiði. Þeir sem staðið hefðu fyrir ofbeldinu um helgina yrðu látnir axla ábyrgð á því.