Aukin harka virðist vera að færast í stríð filippseysku lögreglunnar gegn fíkniefnum og hafa 58 verið drepnir í aðgerðum lögreglu sl. þrjá sólahringa. 26 létust í aðgerðum lögreglu í Manila, höfuðborg Filippseyja í nótt og þá drap lögregla 32 í Bulacan héraði sólarhringinn á undan.
Erwin Margarejo, talsmaður lögreglunnar í Manila, sagði aðgerðina hafa hafist seint í gærkvöldi og að um væri að ræða einstaka stóraðgerð. Reuters segir lögregluna í Bulacan hafa notað sömu lýsingu og að allir þeir sem þar létust hafi verið meintir fíkniefnasalar sem hafi verið vopnaðir og varist handtöku.
Að sögn lögreglu voru 179 handteknir í 84 aðgerðum í Manila og Bulacan. Segir lögregla að í flestum tilfellum hafi verið um að ræða aðgerð þar sem óeinkennisklæddur lögreglumaður reynir að kaupa eiturlyf frá fíkniefnasala, sem síðan á að handtaka.
„Þetta var eins stök stóraðgerð, þannig að fókusinn var ekki bara á fíkniefni. Við vorum líka að taka á götuglæpum á borð við rán, en þessir einstaklingar gátu verið undir áhrifum fíkniefna,“ sagði Margarejo. „Ef þeir sýndu ofbeldisfullan mótróa gegn handtöku, þá verða lögreglumenn okkar að geta varið sig.“
Þúsundir hafa verið drepnir frá því að Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, lýsti yfir umdeildu stríði gegn fíkniefnum í fyrra. Er herferð forsetans ætlað að þurrka með öllu út fíkniefnaviðskipti í landinu. Hún hefur hins vegar verið harðlega gagnrýnd af mannréttindasamtökum og alþjóðasamfélaginu vegna fjölda dauðsfalla.
Duterte hefur áður réttlætt dráp án dóms og laga og sagði hann gott að 32 glæpamenn hefðu verið drepnir í aðgerðunum í Bulacan. „Drepum 32 til viðbótar á hverjum degi. Þá getum við kannski dregið úr því sem þjáir þetta land,“ sagði Duterte.