Rúmlega eitt hundrað særðir

AFP

Stjórnvöld í Katalóníu á Spáni staðfestu á blaðamannafundi í kvöld að rúmlega eitt hundrað manns hefði orðið fyrir meiðslum í hryðjuverkinu í Barcelona í dag. Þrettán létu lífið en varað var við því á fundinum að sú tala gæti átt eftir að hækka.

Þetta kemur fram á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC. Þar segir ennfremur að spænska lögreglan hafi staðfest að hvorugur þeirra tveggja manna sem handteknir hafa verið hafi verið ökumaður sendiferðabifreiðarinnar sem ekið var á gangandi vegfarendur.

Haft er eftir lögregluforingjanum Josep Lluis Trapero að mennirnir tveir séu grunaðir um að tengjast hryðjuverkinu en það þýddi ekki að þeir hefðu framið það. Mennirnir eru annars vegar frá spænska borgríkinu Melilla á strönd Norður-Afríku og hins vegar frá Marokkó. Ekki er vitað um ökumanninn.

Einnig hefur verið staðfest að maður sem ók á lögreglumenn við vegatálma í útjaðri Barcelona hafi verið skotinn til bana. 

Þá telur lögreglan að hryðjuverkið tengist spengingu í húsi í bænum Alcanar í morgun þar sem einn lét lífið og nokkrir urðu fyrir meiðslum en talið var að um gassprengingu hafi verið að ræða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert