Stela dýragarðsdýrum til matar

Venesúelamenn hafa sumir hverjir flúið land til Kólumbíu þar sem …
Venesúelamenn hafa sumir hverjir flúið land til Kólumbíu þar sem þeir hafast við í flóttamannabúðum og fá mat. AFP

Soltn­ir og ör­vænt­ing­ar­full­ir íbú­ar Venesúela hafa neyðst til að stela dýr­um úr dýra­görðum til að seðja sár­asta hungrið. Lögegl­an rann­sak­ar nú grun­semd­ir um að dýr­um hafi meðal ann­ars verið rænt úr dýrag­arði í Zulia í vest­ur­hluta lands­ins.

Mik­ill mat­væla­skort­ur er í Venesúela og verð á mat­væl­um hef­ur hækkað upp úr öllu valdi síðustu sex mánuði í kjöl­far mik­ils póli­tísks óstöðug­leika. 

Í frétt Reu­ters er haft eft­ir lög­regl­unni að tveim­ur pekka­rísvín­um, sem eru áþekk villi­gölt­um, hafi verið stolið um síðustu helgi úr dýrag­arðinum í borg­inni Maracai­bo í Zulia-ríki. Borg­in er rétt við landa­mær­in að Kól­umb­íu. 

„Við höld­um að þau hafi verið tek­in með það í huga að borða þau,“ seg­ir lög­reglumaður­inn Luis Morales.

Í frétt Reu­ters seg­ir að mat­ar­skort­ur­inn í Venesúela hafi þegar orðið til þess að hluti þjóðar­inn­ar hef­ur ekki nóg að borða og leit­ar mat­ar í ör­vænt­ingu, m.a. í ruslagám­um.

Nicolas Maduro for­seti kenn­ir stjórn­ar­and­stöðunni og mót­mæl­um sem hann seg­ir hana hafa staðið fyr­ir um. Hann seg­ir að mót­mæl­in hafi komið af stað „efna­hags­legu stríði“ sem yf­ir­völd í Banda­ríkj­un­um eigi þátt í.

Stela fá­gæt­um dýr­um

Stjórn­end­ur dýrag­arðanna segja að þjófnaður á dýr­um hafi færst í auk­ana síðustu vik­ur. Dýr af að minnsta kosti tíu teg­und­um hafi verið tek­in. Meðal ann­ars hafi vísundi verið stolið, hann brytjaður niður og seld­ur. Tel­ur stjórn­andi dýrag­arðsins í Zulia að eit­ur­lyfja­sal­ar hafi staðið fyr­ir þjófnaðinum á dýr­inu og séð hagnaðar­von í því að selja kjötið.

Sjald­gæf­um dýr­um hef­ur einnig verið stolið, m.a. tveim­ur tapír­um, frum­skóg­ar­dýr­um sem eru áþekk svín­um. Tapír­ar eru skil­greind­ir sem „viðkvæm teg­und“. 

Dýrag­arðsyf­ir­völd segja að þau glími líka við annað vanda­mál, þ.e. að út­vega mat handa dýr­un­um. Í fyrra sultu um fimm­tíu dýr í hel í dýrag­arðinum í höfuðborg­inni Caracas. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert