Donald Trump Bandaríkjaforseti fordæmir þá ákvörðun margra borga að fjarlægja minnisvarða um Suðurríkin og hershöfðingja þeirra í bandarísku borgarastyrjöldinni. „Það er sorglegt að sjá sögu og menningu okkar frábæra lands rifna í sundur með því að fjarlægja fallegar styttur og minnismerki. Sögunni fæst ekki breytt!“ segir Trump á Twitter.
Mönnum greinir á um framtíð styttanna. Meðan sumir taka undir með forsetanum segja aðrir stytturnar til marks um horfinn heim kynþáttaaðskilnaðar og furða sig á að styttur hafi yfir höfuð verið reistar landráðamönnum til heiðurs.
Forsetinn hefur legið undir gagnrýni undanfarna daga vegna viðbragða sinna við óeirðunum í Charlottesville á dögunum þar sem hundruð hvítra þjóðernissinna og nýnasista fylktu liði til að mótmæla því að fjarlægja ætti styttur hershöfðingja landráðamanna úr Suðurríkjahernum. Þrír voru drepnir, en að tók Trump tvo daga að fordæma þjóðernissinnana. Áður hafði hann talað um „ofbeldi frá báðum hliðum“.
Sad to see the history and culture of our great country being ripped apart with the removal of our beautiful statues and monuments. You.....
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) August 17, 2017
Hann dró síðan í land í fyrradag og sagði meðal annars að margt gott fólk hefði verið í hópi mótmælenda. Vandséð er hvað forsetinn átti við með því en ekki fæst betur séð en að á ferðinni hafi verið þaulskipulagður hópur þjóðernissinna sem hrópaði í kór slagorð á borð við „Gyðingar munu ekki koma í okkar stað“, og „Blóð og jörð“, kunnugleg stef úr Þýskalandi nasismans.
Meðal þeirra sem gagnrýnt hafa forsetann er Repúblikaninn John Kasich, ríkisstjóri Ohio, en hann sagði viðbrögð Trump „aumkunarverð“ og skoraði á hann að fordæma þjóðernissinna af fullri hörku.