Tony Schwartz, sem ritaði ævisögu Donalds Trump, Art of the Deal, spáir því að forsetinn muni segja af sér áður en árið er úti. Schwartz hefur þekkt Trump í þrjá áratugi. Hann var svokallaður „draugapenni“ hans við skrifin á sjálfsævisögunni árið 1987.
Schwartz var hins vegar einn helsti gagnrýnandi Trumps í kosningabaráttu hans á síðasta ári. Hann sagði þá að hann sæi innilega eftir því að hafa komið að því að skapa opinbera ímynd Trumps.
Síðustu tvö ár hefur Schwartz skrifað færslur á Twitter um Trump, m.a. um kynni sín af honum á níunda áratug síðustu aldar. Í gær skrifaði hann svo: „Hringurinn er að þrengjast á ógnarhraða. Trump mun segja af sér og lýsa yfir sigri áður en Mueller og þingið þvingar hann til þess.“
The circle is closing at blinding speed. Trump is going to resign and declare victory before Mueller and congress leave him no choice.
— Tony Schwartz (@tonyschwartz) August 16, 2017
Robert Mueller, fyrrverandi stjórnandi FBI, fer fyrir sakamálarannsókn á því hvort að einhver úr kosningateymi Trumps hafi unnið með rússneskum uppljóstrurum í kosningabaráttunni á síðasta ári. Þá eru fjórar þingnefndir að rannsaka afskipti Rússa af forsetakosningunum.