Steve Bannon tekur pokann sinn

Steve Bannon.
Steve Bannon. AFP

Helsti ráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseta hefur látið af störfum í Hvíta húsinu en fjölmiðlafulltrúi forsetans, Sarah Sanders, segir í yfirlýsingu að Bannon og John Kelly, starfsmannastjóri Hvíta hússins, hafi komist að samkomulagi um að hann hætti.

„Starfsmannastjóri Hvíta hússins, John Kelly, og Steve Bannon hafa komist að samkomulagi um að dagurinn í dag yrði síðasti vinnudagur Steves. Við erum þakklát fyrir þjónustu hans og óskum honum alls hins besta,“ segir í yfirlýsingunni. 

Trump hefur verið gagnrýndur harðlega bæði úr röðum Repúblikana og Demókrata fyrir að þeir, sem mótmæltu hvítum kynþáttahöturum í borginni Charlottesville í Virginíu-ríki í Bandaríkjunum, bæru jafna ábyrgð á ofbeldinu sem braust út í kjölfarið.

Gagnrýnendur Bannons hafa úthrópað hann sem kynþáttahatara og hefur hann alltaf verið umdeildur í starfsliði forsetans. Bandaríska dagblaðið New York Times hefur eftir heimildarmanni sem þekkir Bannon vel að hann hafi sjálfur ákveðið að hætta og verið búinn að skila inn uppsagnarbréfi 7. ágúst sem taka ætti gildi í dag.

Bannon bætist í hóp fleiri háttsettra starfsmanna Trumps sem hann hefur rekið en þar á meðal eru Reince Priebus, sem var starfsmannastjóri forsetans þar til í lok júlí, og Sean Spicer, sem gegndi embætti fjölmiðlafulltrúa Hvíta hússins. Þá var Anthony Scaramucci rekinn nýverið úr embætti samskiptastjóra Hvíta hússins eftir aðeins tíu daga í starfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert