Skutu grunaðan hryðjuverkamann

AFP

Tyrkneskar öryggissveitir skutu til bana í dag grunaðan liðsmann hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams og handtóku fjóra aðra en mennirnir eru grunaðir um skipulagningu á sprengjuárás í landinu samkvæmt frétt AFP.

Fram kemur í fréttinni að atvikið hafi átt sér stað í Hatay-héraði í suðurhluta Tyrklands eftir að tyrkneska lögreglan stöðvaði bifreið mannanna eftir að hafa fengið upplýsingar um að þar væru á ferðinni liðsmenn Ríkis íslams.

Fjórir hinna grunuðu gáfust upp fyrir lögreglunni en sá fimmti var skotinn til bana eftir að hann neitaði að fylgja fyrirmælum lögreglumannanna og reyndi að ráðast á þá samkvæmt upplýsingum frá tyrkneskum embættismönnum.

Maðurinn sem var skotinn var sýrlenskur ríkisborgari og lést hann eftir að hafa verið fluttur á sjúkrahús þar sem reynt var að bjarga lífi hans. Þjóðerni hinna fjögurra hefur ekki verið gefið upp. Rannsókn heldur áfram á málinu.

Tveir erlendir ríkisborgara, sem einnig eru grunaðir um að vera liðsmenn Ríkis íslams, voru handteknir á fimmtudaginn í Istanbul sakaðir um að skipuleggja hryðjuverka árás. Lögreglan lagði ennfremur hald á skotvopn og skotfæri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert