Spænsk yfirvöld munu auka viðbúnað á fjölförnum stöðum eftir hryðjuverkaárásirnar í Barcelona og Cambrils í vikunni. Fjórtán eru látnir eftir árásirnar, sem hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hafa lýst yfir ábyrgð á.
Yfir 130 slösuðust í árásunum, og eru 53 þeirra enn á sjúkrahúsi. Þrettán eru í lífshættu, en 78 hafa verið útskrifaðir af sjúkrahúsi.
Innanríkisráðherra Spánar, Juan Ignacio Zoido, hefur staðfest að öryggisgæsla verði aukin á vinsælum ferðamannastöðum og á viðburðum sem draga að sér fjölda fólks.
Spænskir miðlar hafa einnig sagt að öryggisgæsla við landamærin til Frakklands verði aukin. Síðustu daga hefur franska lögreglan jafnframt verið með herta gæslu gagnvart fólki sem kemur frá Spáni, en eins hryðjuverkamannanna er enn leitað.
Hert öryggisgæsla verður á Camp Nou-leikvangnum í Barcelona í dag, en búist er við því að um hundrað þúsund manns verði þar á fyrsta leik keppnistímabilsins gegn Real Betis.
Fyrir leikinn verður hinna látnu minnst með mínútuþögn. Þá verða liðsmenn knattspyrnuliðs Barcelona með svört armbönd og í sérstökum treyjum þar sem katalónsku orðin fyrir „Við erum öll Barcelona“ verða rituð.
Einn hryðjuverkamannanna er enn á flótta, en lögregla leitar hans nú um alla Katalóníu. Er það hinn 22 ára gamli Younes Abouyaaqoub, sem er talinn hafa verið ökumaður sendiferðabílsins var ekið var á hóp fólks á Römblunni.
Í fyrstu var talið að hinn sautján ára gamli Moussa Oukabir hefði ekið bílnum. Lögreglustjórinn Josep Trapero hefur hins vegar sagt að nú sé kenningin sú að Abouyaaqoub hafi ekið bílnum, ekki Oukabir.
Oukabir er grunaður um að hafa notað skilríki bróður síns til að leigja sendibílinn sem síðar var ekið á mannfjöldann. Hann leigði einnig annan bíl sem fannst nokkrum klukkustundum síðar í bænum Vic, norður af Barcelona. Sá er talinn hafa átt að þjóna hlutverki flóttabíls.
Lögreglan telur að hryðjuverkamennirnir hafi ætlað sér að fremja fleiri árásir, en hópurinn taldi tólf manns.