Angela Merkel Þýskalandskanslari fagnar niðurstöðu spænsks dómstóls um að láta tafarlaust tyrkneskan-þýskan ríkisborgara lausan úr haldi spænsku lögreglunnar. Blaðamaðurinn Dogan Akhanli var handtekinn í fríi á Spáni eftir Tyrkir gáfu út alþjóðlega handtökuskipun á hann.
Þýsk og tyrknesk stjórnvöld hafa átt í hörðum deilum undanfarið. Þýsk stjórnvöld hafa gefið út viðvörun til þýskra ferðamanna vegna ferðalaga til Tyrklands og tekið aðrar ákvarðanir sem kunna að skaða milliríkjaviðskipti Tyrklands.
„Við getum ekki misnotað alþjóðastofnanir eins og Interpol,“ sagði Angela Merkel í viðtali við sjónvarpsstöðina RTL. Hún sagði þetta ekki einsdæmi, að Tyrkir reyndu að nýta sér alþjóðlegar stofnanir til að ná pólitískum andstæðingum sínum og nafngreindi í því sambandi blaðamanninn Deniz Yucel hjá Die Welt sem bíður réttarhalda vegna meintra brota á hryðjuverkalögum.
Recep Tayyip Erdogan hvatti í morgun aftur þýska ríkisborgara af tyrkneskum uppruna til að hafna flokk Angelu Merkel og stjórnarflokkum landsins í komandi þingkosningum. Hann hafði gert það áður og mættu yfirlýsingar hans hörðum viðbrögðum þýskra stjórnvalda.