Almyrkvinn gengur yfir Bandaríkin

Almyrkvinn sást vel í Oregon.
Almyrkvinn sást vel í Oregon. AFP

Sá sjaldgæfi atburður á sér nú stað í Bandaríkjunum að almyrkvi sést á sólu. Sást hann fyrst fyrir um klukkustund, klukkan 10:15 að staðartíma í Oregon á Vesturströndinni, og gengur hann nú þvert yfir Bandaríkin. Mun hann síðast sjást í Suður-Karólínu um 90 mínútum eftir að hann hófst.

Gert er ráð fyrir að um 20 milljónir manna berji almyrkvann augum, og er nú mikið fjallað um hann í fjölmiðlum um allan heim. Þá má sjá á samfélagsmiðlum að hann vekur gríðarlega athygli almennings. 

Al­myrkvi sást síðast frá meg­in­landi Banda­ríkj­anna árið 1979 en þetta er í fyrsta sinn síðan 1918 að al­myrkvi geng­ur þvert yfir Banda­rík­in. Al­myrkvinn mun sjást inn­an u.þ.b. 100 kíló­metra breiðs belt­is og búa um 12 millj­ón­ir manna inn­an svæðis­ins. Fólksfjöldi beltisins tæplega tvöfaldast hins vegar í dag þar sem um átta millj­ón­ir inn­lendra og er­lendra ferðamanna eru þar til að berja hann augum.

AFP

Nokkr­ir Íslend­ing­ar eru á svæðinu, þar á meðal Sæv­ar Helgi Braga­son, formaður Stjörnu­skoðun­ar­fé­lags Seltjarn­ar­ness, sem var í viðtali við mbl.is um málið í gær.

Í mars 2015 varð á Íslandi 98 pró­senta deild­ar­myrkvi, en þar sem almyrkvinn sést í Bandaríkjunum í dag er hann 100 prósent. Árið 2026 verður síðan al­myrkvi á Íslandi, sá fyrsti síðan 1466. 

Hægt er að fylgjast með beinni textalýsingu af almyrkvanum hjá Sky-fréttastofunni og á fleiri miðlum.

Geimferðastofnun Bandaríkjanna (NASA) fylgist grannt með málinu og hefur slegið á létta strengi á Twitter eins og sjá má hér fyrir neðan.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert