Sá sjaldgæfi atburður á sér nú stað í Bandaríkjunum að almyrkvi sést á sólu. Sást hann fyrst fyrir um klukkustund, klukkan 10:15 að staðartíma í Oregon á Vesturströndinni, og gengur hann nú þvert yfir Bandaríkin. Mun hann síðast sjást í Suður-Karólínu um 90 mínútum eftir að hann hófst.
Gert er ráð fyrir að um 20 milljónir manna berji almyrkvann augum, og er nú mikið fjallað um hann í fjölmiðlum um allan heim. Þá má sjá á samfélagsmiðlum að hann vekur gríðarlega athygli almennings.
Almyrkvi sást síðast frá meginlandi Bandaríkjanna árið 1979 en þetta er í fyrsta sinn síðan 1918 að almyrkvi gengur þvert yfir Bandaríkin. Almyrkvinn mun sjást innan u.þ.b. 100 kílómetra breiðs beltis og búa um 12 milljónir manna innan svæðisins. Fólksfjöldi beltisins tæplega tvöfaldast hins vegar í dag þar sem um átta milljónir innlendra og erlendra ferðamanna eru þar til að berja hann augum.
Nokkrir Íslendingar eru á svæðinu, þar á meðal Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, sem var í viðtali við mbl.is um málið í gær.
Í mars 2015 varð á Íslandi 98 prósenta deildarmyrkvi, en þar sem almyrkvinn sést í Bandaríkjunum í dag er hann 100 prósent. Árið 2026 verður síðan almyrkvi á Íslandi, sá fyrsti síðan 1466.
Hægt er að fylgjast með beinni textalýsingu af almyrkvanum hjá Sky-fréttastofunni og á fleiri miðlum.
Geimferðastofnun Bandaríkjanna (NASA) fylgist grannt með málinu og hefur slegið á létta strengi á Twitter eins og sjá má hér fyrir neðan.