Einn er látinn eftir að bifreið var ekið inn í hóp fólks á strætisvagnastöð í frönsku borginni Marseille um níu leytið í morgun að staðartíma, um klukkan 7 að íslenskum tíma. Annar er mjög alvarlega slasaður.
Samkvæmt fréttum virðist sem ekið hafi verið á fólk á tveimur strætisvagnastöðvum í hafnarborginni. Ökumaðurinn var handtekinn. Ekki kemur fram hvort málið sé rannsakað sem hryðjuverk.
Fyrstu fregnir af atvikinu er óljósar en svo virðist sem Renault bifreið hafi verið ekið á miklum hraða inn á stoppistöð í 13 hverfi borgarinnar og þaðan inn á aðra stoppistöð í 9. hverfi. Á fyrri stoppistöðinni slasaðist einn alvarlega en einn lést á þeirri síðari.
Julien Ravier, hverfisstjóri í 11. og 12. hverfi Marseille, segir í viðtali við BFMTV fréttastöðina að kona á fimmtugsaldri hafi látist en hún var ein á stoppistöðinni.
Heimildir AFP fréttastofunnar herma að maðurinn sem um 35 ára og ekki frá Marseille. Aðrar heimildir herma að bifreiðin hafi verið sendibíll. Samkvæmt frétt BFMTV náði vegfarandi skráningarnúmeri bifreiðarinnar og gat lögregla því elt bifreiðina. Ökumaðurinn var handtekinn við gömlu höfnina. Lögreglan hefur lokað svæðið af og biður íbúa um halda sig fjarri.