Talaði um „sjúka“ fjölmiðlamenn

Donald Trump Bandaríkjaforseti á fundinum með stuðningsmönnum sínum í Phoenix …
Donald Trump Bandaríkjaforseti á fundinum með stuðningsmönnum sínum í Phoenix í gær. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti varði viðbrögð sín við ofbeldi hvítra kynþáttahatara í Charlottesville í Virginíu-ríki í Bandaríkjunum fyrr í þessum mánuði í ræðu sem hann flutti í Phoenix í Arizona-ríki í gær á fundi með stuðningsmönnum sínum og fordæmdi enn fremur óheiðarlega umfjöllun fjölmiðla um þau.

Forsetinn var harðlega gagnrýndur fyrir viðbrögð sín sem snerust einkum um að ofbeldið hefði verið báðum fylkingunum sem laust saman í Charlottesville, kynþáttahöturunum og þeim sem mættu til þess að mótmæla þeim, að kenna. Trump var einnig gagnrýndur bæði úr röðum Repúblikana og Demókrata fyrir að fordæma ofbeldið aðeins seint og um síðir.

AFP

„Hinir mjög svo óheiðarlegu fjölmiðlar, og ég á þar við virkilega óheiðarlegt fjölmiðlafólk og hina fölsku fjölmiðla, það skáldar fréttir. Það hefur engar heimildir í mörgum tilfellum. Það talar um að heimildarmenn segi eitthvað – en það er engu slíku fyrir að fara,“ sagði hann.

Forsetinn sagði þessa fjölmiðla ekki segja frá staðreyndum. „Rétt eins og þeir vilja ekki segja frá því að ég hafi talað af krafti gegn hatri, þröngsýni og ofbeldi og fordæmt harðlega nýnasista, hvíta kynþáttahatara og Ku Klux Klan.“

Fram kemur í frétt AFP að Trump hafi varið um hálftíma af 78 mínútna ræðu til þess að ræða um „sjúka fólkið“ í fjölmiðlaheiminum.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert