Tæplega annar hver Norðmaður, eða 44 prósent, telur að innflytjendur og flóttamenn séu bein ógn við öryggi landsins. Þetta er meðal niðurstaðna nýrrar könnunar Utanríkismálastofnunar Noregs (Norsk utenrikspolitisk institutt, NUPI) sem norska ríkisútvarpið NRK greinir frá.
Í könnuninni var 1.001 þátttakandi spurður hvað hann eða hún teldi helst ógna öryggi Noregs. Efst á listanum varð framangreint en hryðjuverk og tölvuárásir erlendis frá voru einnig ofarlega á blaði. Þá taldi fjórðungur þátttakenda Noreg í hættu vegna mögulegra aðgerða hryðjuverkamanna í landinu og margir nefndu sérstaklega ótta sinn við hryðjuverkasamtökin Ríki íslams.
„Þetta er nokkuð sem við sjáum í mörgum öðrum Evrópulöndum,“ segir Ulf Sverderup, forstöðumaður NUPI, í samtali við NRK, „eins eiga margir erfitt með að gera greinarmun á flóttamönnum og innflytjendum sem koma til landsins og hryðjuverkum og IS [Ríki íslams].“
NUPI kannaði einnig fylgni milli ótta þátttakenda og stjórnmálaskoðana þeirra og kom þá í ljós að yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem óttast innflytjendur og flóttamenn, eða 82 prósent, eru kjósendur Framfaraflokksins (FrP) sem hefur rekið eindregna stefnu gegn innflytjendum og flóttamönnum hin síðustu ár. Næstir í röðinni koma kjósendur Hægri (H) en 48 prósent þeirra óttast innflytjendur og 47 prósent fylgismanna Miðflokksins (SP). Fæstir kjósenda Sósíalíska vinstriflokksins (SV) og hins vinstrisinnaða Rautt (R) bera kvíðboga fyrir innflytjendum, eða 14 prósent hjá hvorum fyrir sig.
Mikil umræða hefur verið í norskum fjölmiðlum í vikunni um umdeild ummæli Sylvi Listhaug, ráðherra innflytjenda- og aðlögunarmála (FrP), sem lét hafa það eftir sér að tímabært væri fyrir Noreg að víkja mannréttindasáttmála Evrópu til hliðar og loka þá 1.600 hælisleitendur, sem synjað hefur verið um hæli, inni þar til þeim er komið úr landi.
„Ég tel að við eigum að láta reyna á þessa [alþjóða]sáttmála. Einkum og sér í lagi mannréttindasáttmáli Evrópu er áskorun fyrir þá möguleika sem hvert land hefur til að tryggja öryggi eigin borgara,“ sagði Listhaug í samtali við NRK og vitnaði í nýlega atburði í Barcelona. Ráðherra benti á að frá því í janúar 2015 hefðu 564 látið lífið í hryðjuverkum í Evrópu. „Þetta er fólk sem kærir sig kollótt um eigið líf og annarra. Það drepur sjálft sig og aðra. Til að mæta þessu þurfum við að grípa til nýrra aðgerða og ein af þeim er að hafa stjórn á því hverjir eru í Noregi,“ sagði Listhaug að lokum.