Hátt í milljón borgara Evrópusambandsins sem vinna í Bretlandi hafa annaðhvort íhugað að yfirgefa landið eða hafa þegar gert upp hug sinn um að fara. Ástæðan er fyrirhuguð útganga Bretlands úr Evrópusambandinu.
Þetta kemur fram í rannsókn sem fréttavefur The Guardian greinir frá.
Niðurstöður könnunar með 2.000 þátttakendum sem voru allir starfandi í Bretlandi sýna að 49% þeirra sem hafa framhaldsgráðu á háskólastigi og 55% þeirra sem hafa doktorsgráðu íhuga að yfirgefa landið.
Samkvæmt niðurstöðunum er metið að 3,1% af vinnuafli Bretlands sjái framtíð sína í landinu hanga á bláþræði. Algengasta ástæðan sem svarendur gáfu upp var að þeim fyndist þeir „ekki jafnvelkomnir“ eftir Brexit og að þeir væru „fylgjandi Evrópusamvinnu en mótfallnir Brexit“.