Meirihluti Frakka óánægður með forsetann

Emmanuel Macron.
Emmanuel Macron. AFP

Vin­sæld­ir Emm­anu­els Macron, for­seta Frakk­lands, hafa minnkað veru­lega und­an­farið. Meirihluti franskra kjósenda er óánægður með störf forsetans en þetta kemur fram í skoðanakönnum sem gerð var fyrir blaðið Le Journal du Dimanche.

Samkvæmt könnuninni eru 40% franskra kjósenda nokkuð eða mjög ánægð með forsetann. 54% kjósenda lýstu yfir ánægju með forsetann í sambærilegri könnun fyrr í mánuðinum.

Macron mældist mun vinsælli skömmu eftir að hann vann sigur í frönsku forsetakosningunum í vor. Í byrjun maí sögðust 62% kjósenda ánægð með hann.

57% kjósenda segjast óánægð með forsetann og þar af eru 20% mjög óánægð. Umdeildar breytingar á vinnulöggjöf og niðurskurður á útgjöldum og þjónustu hins opinbera er sagt skýra dvínandi vinsældir Macron.

Einnig er vaxandi óánægja með störf forsætisráðherra Frakklands, Edouard Philippe. 47% eru ánægðir með hann en voru 56% í síðasta mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert