Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segist ekki sjá eftir þeirri ákvörðun sinni að opna landamæri Þýskalands fyrir hundruðum þúsunda flóttamanna árið 2015. Í viðtal við þýska dagblaðið Welt am Sonntag hafnaði Merkel því alfarið að þetta hefðu verið mistök, jafnvel þó að koma rúmlega milljón flóttamanna frá Sýrlandi og Írak til landsins á sl. tveimur árum hafi haft neikvæð áhrif á fylgi kristilegra demókrata.
Fjórar vikur eru nú þar til Þjóðverjar ganga til þingkosninga og skoðanakönnun sem Emnid framkvæmdi og birt var í dag bendir til þess að flokkur Merkel njóti stuðnings 38% aðspurðra, sem er 15 prósentustigum meira en Sósíaldemókratar.
Reuters segir þetta vissulega vera fylgisaukningu frá því í febrúar þegar fylgi flokksins mældist 32% en þó minna en í kosningunum 2013, þegar kristilegir demókratar hlutu 41,5% fylgi.
„Ég myndi taka allar mikilvægar ákvarðanir sem ég tók 2015 á sama hátt aftur,“ sagði Merkel. „Þetta var óvenjulegt ástand og ég byggði ákvarðanir mínar á því sem ég taldi rétt frá sjónarmiði stjórnmála og mannréttinda,“ útskýrði hún.
„Svona staða kemur upp einstöku sinnum í sögu þjóðar. Þá verður þjóðarleiðtogi að bregast við og ég gerði það.“
Sú ákvörðun Merkel að opna landmærin jók stuðning við hægri öfgaflokkinn AfD, sem skoðanakannanir benda til að kunni að bæta fylgi sitt um 10% í kosningunum í næsta mánuði.
Gagnrýnendur Merkel hafa heldur ekki legið á skoðunum sínum varðandi opnun landamæranna, en fylgi hennar og flokksins hefur þó styrkst á ný undanfarna mánuði.