Borga ekki „undir nokkrum kringumstæðum“

Við verðum að fá MÚRINN, sagði Donald Trump Bandaríkjaforseti í …
Við verðum að fá MÚRINN, sagði Donald Trump Bandaríkjaforseti í Twitter-skilaboðum sínum í gær. AFP

Stjórnvöld í Mexíkó ítrekuðu á sunnudag þá afstöðu sína að Mexíkó muni ekki borga fyrir múrinn sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hyggst koma upp á landamærum ríkjanna að því er fréttastofa CNN greinir frá.

Trump tjáði sig á Twitter í gærmorgun líkt og svo oft áður. „Þar sem Mexíkó er ein þeirra þjóða heims sem er með hvað hæsta glæpatíðni þá verðum við að fá MÚRINN. Mexíkó mun greiða fyrir hann í gegnum endurgreiðslur/annað,“ sagði í tísti forsetans.

Utanríkisráðuneyti Mexíkó brást við tísti forsetans með því að ítreka að Mexíkó muni ekki greiða fyrir múr eða aðrar efnislegar hindranir á landamærunum „undir nokkrum kringumstæðum“.

„Þessi staðfesta er ekki hluti af samningatækni Mexíkóa, heldur grundvallaratriði þjóðlegs sjálfstæðis og virðingar,“ sagði í yfirlýsingunni. Glæpatíðnin væri þá vandi sem þjóðirnar deildu og sem væri að hluta til komin vegna eftirspurnar Bandaríkjamanna eftir fíkniefnum frá Mexíkó.

Eitt af helstu kosningaloforðum Trumps fyrir forsetakosningarnar var að reisa múr á landamærum ríkjanna og að láta Mexíkó borga múrinn. Eftir að hann tók við embætti hefur Trump krafist þess að þingið finni fé fyrir múrframkvæmdina og finni leið til að láta yfirvöld í Mexíkó greiða Bandaríkjunum hana  til baka.

Ráðamenn í Mexíkó hafa alfarið hafnað slíkum hugmyndum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert