Indverski trúarleiðtoginn Ram Rahim Singh var í dag dæmdur í 20 ára fangelsi fyrir að hafa nauðgað tveimur fylgjendum sínum. Miklar óeirðir brutust út þegar hann var fundinn sekur í síðustu viku og létust 38 og um 200 særðust í átökunum.
Dómurinn var kveðinn upp í borginni Rohtak í norðurhluta landsins en gríðarlegur viðbúnaður er í borginni vegna dómsins þar sem óttast er að til átaka komi líkt og í síðustu viku.
Tugir þúsunda stuðningsmanna Singh kveiktu í bílum og réðust gegn lögreglu og hermönnum í Harynana-héraði þegar Singh var fundinn sekur um að nauðganir á föstudag.
Forsætisráðherra Indlands, Narendra Modi, fordæmdi ofbeldið en flokkur hans, Bharatiya Janata, sem einnig ræður ríkjum í Haryana hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir að hafa ekki brugðist við áður en dómurinn var kveðinn upp þar sem fyrirsjáanlegt hafi verið að til átaka kæmi. Lögreglan hefur ekki tekið neina áhættu í Rohtak og hefur verið slökkt á þráðlausu netsambandi, vegum lokað með vegatálmum og hermenn á götum úti.
Yfir 100 af helstu stuðningsmönnum Singh eru í haldi lögreglu í forvarnarskyni, að sögn lögreglustjórans í Rohtak, Navdeep Singh Virk. Allt verði gert til þess að koma í veg fyrir mannskæð átök.
Flogið var með dómarann í þyrlu í dómshúsið en talið er að fylgjendur Singh séu um 50 milljónir talsins víða um heim.
Singh var saksóttur í kjölfar þess að þáverandi forsætisráðherra, Atal Bihari Vajpayee, barst nafnlaust bréf árið 2002 þar sem Singh var sakaður um að hafa nauðgað sendanda bréfsins ítrekað og nokkrum öðrum konum í söfnuðinum.
Miðlæg rannsóknardeild lögreglu hóf rannsókn í kjölfarið en það tók nokkur ár að hafa upp á meintum fórnarlömbu. Það var ekki fyrr en árið 2007 sem tvær konur stigu fram og lögðu fram kæru gegn trúarleiðtoganum.
Talið er að um 200 þúsundir félagar í Dera Sacha Sauda trúarhreyfingunni hafi komið saman í borginni Panchkula í gær til þess að sýna leiðtoga sínum stuðning.
Singh hefur oft komist í kastljós fjölmiðla en árið 2015 var hann sakaður um að hafa hvatt 400 fylgjendur sína til þess að fara í ófrjósemisaðgerð á trúarsetri hans svo þeir kæmust nær guði. Eins var hann sóttur til saka um samsæri þegar blaðamaður var myrtur árið 2002.
Uppfært kl 16:04: Í upphaflegu fréttinni kom fram að Singh hafi hlotið 10 ára dóm, en hið rétta er að hann fékk tvo 10 ára dóma, samtals 20 ár.