Frá Ósló til öfga-íslam

Norska lögreglan að störfum. Mynd úr safni.
Norska lögreglan að störfum. Mynd úr safni. AFP

Þegar sérsveit lögreglunnar í Ósló réðst til inngöngu í húðflúrstofuna Metal Tattoo haustið 2010, þekkt afdrep nýnasista í borginni, fann hún varning sem hringdi mörgum viðvörunarbjöllum. Þar innandyra fundust vopn, norskir einkennisbúningar hermanna og tvö fölsuð aðgangskort að herbúðum í Noregi.

Þar á staðnum hittist meðal annars fyrir Oleg Neganov, rúmlega tvítugur rússneskur innflytjandi sem fluttist með foreldrum sínum til Noregs 17 ára gamall og var á nokkrum árum orðinn innsti koppur í búri samtaka norsk-rússneskra nýnasista í austurhluta Noregs, sem er Ósló og fylkin í kring.

Neganov sætti rannsókn og var við fjórða mann ákærður vegna þeirra muna sem fundust á húðflúrstofunni en slapp við fangelsisvist. Lítið fór fyrir Rússanum í kjölfar Metal Tattoo-málsins en í fyrravor greindi breska dagblaðið The Telegraph frá því, í samstarfi við Zaman al-Wasl, dagblað sýrlensku andspyrnuhreyfingarinnar, að norskur þyrluflugmaður hefði birst á leynilegum liðsmannalista hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams, sem sýrlenska dagblaðið hafði komist yfir.

Í þjálfunarbúðum fyrir stjórnendur samtakanna

Maður þessi kallaði sig Abu Amir al-Russi og titlaði sig þyrluflugmann, leyniskyttu og skriðdrekastjóra. Norska ríkisútvarpið NRK hefur nú fengið aðgang að listanum gegnum Zaman al-Wasl og kemur þar hvort tveggja fram, rétt nafn al-Russi og fæðingardagur hans sem kemur heim og saman við upplýsingar um hann í norsku þjóðskránni. Þar er enginn annar á ferð en nýnasistinn frá Metal Tattoo sem nú hefur gengið af fyrri sannfæringu og gerst handgenginn Ríki íslams.

Þrátt fyrir starfsheitin hefur norska loftferðaeftirlitið engar upplýsingar um að Oleg Neganov hafi nokkru sinni hlotið réttindi til þyrluflugs og enginn þeirra flugskóla í Ósló og nágrenni, sem NRK hefur rætt við, kannast við hann meðal nemenda sinna.

Svo virðist sem aðild Neganov að Ríki íslams hafi staðið að minnsta kosti frá því 2014 og sennilega lengur en í júní það ár er hann skráður þátttakandi í þjálfunarbúðum fyrir stjórnendur innan samtakanna í Raqqa í Sýrlandi ásamt 367 öðrum. Rússnesk stjórnvöld hafa nú í samvinnu við alþjóðalögregluna Interpol sett Neganov á lista yfir aðila sem eftirlýstir eru fyrir aðild að hryðjuverkasamtökum.

Frá Ósló.
Frá Ósló. mbl.is/Golli

Baðst fyrir í mosku í Horten

Ekki er ljóst hvenær hollusta Rússans unga snerist frá Hitler til hryðjuverkaleiðtogans al-Baghdadi heitins en vitað er að hann birti myndir af kóraninum á samfélagsmiðlum þegar árið 2013. NRK hefur rætt við múslima sem sækja mosku í bænum Horten í Vestfold, suðvestur af Ósló, og staðfesta þeir, eftir að hafa séð mynd af Neganov, að hann hafi komið reglulega og beðist fyrir í moskunni á árum áður en nú hafi hann ekki sést lengi.

Neganov hefur nú skráð lögheimili í Rússlandi en þegar fréttamenn á vegum NRK knúðu þar dyra hittu þeir fyrir nána ættingja hans sem sögðust ekkert vita um hans afdrif. Fjölmiðillinn hefur þó fengið staðfest, frá heimildarmanni sem þekkir Neganov vel, að hann hafi að minnsta kosti verið enn í Sýrlandi í fyrra.

Þrjár bekkjarsystur til Sýrlands

Talið er að allt að 40 einstaklingar frá eða með sterk tengsl við Noreg hafi á síðustu árum ferðast til svæða þar sem Ríki íslams hefur töglin og hagldirnar til að ganga til liðs við samtökin. Mikil umfjöllun var í norskum fjölmiðlum árið 2015 um það þegar þrjár 19 ára gamlar stúlkur, bekkjarsystur í framhaldsskóla í Ósló, fóru til Sýrlands í þeim tilgangi að gerast eiginkonur í yfirlýstu kalífadæmi Ríkis íslams en ein þeirra hafði þá getið barn við liðsmanni samtakanna sem um tíma bjó í Vadsø í Norður-Noregi.

Öryggisþjónusta norsku lögreglunnar (PST) sendi þá út svokallaða rauðgula viðvörun til annarra Evrópulanda þar sem um tíma var talið að að minnsta kosti ein kvennanna þriggja hygðist framkvæma sjálfsmorðsárás í þjónustu Ríkis íslams. Það síðasta sem heyrðist frá móðurinni nýbökuðu var hins vegar í maí 2015 þegar hún birti stöðuuppfærsluna „Got Married“ á samfélagsmiðlum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert