Þjófum tókst að stela yfir 300 vínflöskum, sem metnar eru á rúmlega 250 þúsund evrur, 31,5 milljónir króna, með því að grafa göng inn í vínkjallara í einkaeigu úr katakombunum í París.
Að sögn lögreglu var vínið síðan flutt að næturlagi í gegnum grafhvelfingarnar sem eru eins og völundarhús undir borginni en göngin um þær eru alls 250 km löng. Vínið var geymt í kjallara íbúðar auðkýfings í sjötta hverfi, skammt frá Lúxemborgargarðinum.
Lögreglan telur að þjófarnir hafi vitað nákvæmlega hvar vínkjallarann var að finna. Þeir boruðu sér leið upp úr katakombunum sem ekki er erfitt verk þar sem veggirnir eru yfirleitt kalksteinn. Talsmaður lögreglunnar segir að ekki hafi verið um slembilukku að ræða hjá þjófunum heldur hafi þeir greinilega komið inn í vínkjallarann áður.
Bannað er að fara inn í katakomburnar að næturlagi og hluti þeirra er lokaður fyrir almenningi nema í fylgd fararstjóra. Vitað er að ákveðinn hópur fólks sækir inn í katakomburnar að næturlagi en það hefur hingað til verið látið óáreitt af yfirvöldum. Þeir laumast þangað inn að næturlagi í gegnum leynileiðir, yfirleitt fyrrverandi holræsakerfi borgarinnar, og eiga sínar stundir þar. Eins hafa verið haldnar þar leyniveislur, leynifundir og jafnvel kvikmyndasýningar.