Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði á Twitter fyrr í dag að viðræður við Norður-Kóreu væru ekki lausnin. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fordæmdi eldflaugarskot Norður-Kóreu yfir Japan á fundi í gærkvöldi.
„Bandaríkin hafa átt í viðræðum við Norður-Kóreu og við höfum borgað þeim blóðpeninga í 25 ár. Viðræður eru ekki lausnin!“ skrifaði forsetinn á Twitter.
The U.S. has been talking to North Korea, and paying them extortion money, for 25 years. Talking is not the answer!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) August 30, 2017
Yfirvöld í Norður-Kóreu segja að eldflaugarskotið yfir Japan hafi verið fyrsta skrefið í hernaðaraðgerðum ríkisins á Kyrrahafi. Því bendir allt til þess að fleiri eldflaugaskot séu í undirbúningi.
Norður-Kóreumenn skutu tveimur langdrægum eldflaugum í tilraunaskyni í síðasta mánuði og þær voru af tegund sem talið er að geti dregið til stórborga á meginlandi Bandaríkjanna. Donald Trump Bandaríkjaforseti svaraði með því að vara N-Kóreumenn við því að hann myndi refsa þeim „með eldi og ofsabræði, sem heimurinn hefur aldrei séð áður“ héldu þeir áfram að hafa í hótunum við Bandaríkin.