Starfsfólk og gestir MacDonald Loch Rannoch hótelsins í Skotlandi neyddust til að flýja eftir að tveir ellilífeyrisþegar gengu berserksgang á hótelinu.
Hinn 72 ára gamli Robert Fergus hljóp nakinn um móttöku hótelsins með skæri í höndum og braut rúðu.
Eiginkona hans Ruth, sem er þremur árum yngri en Robert, hótaði að skjóta starfsmenn hótelsins eftir að „hlotið slæm viðbrögð“ eftir neyslu áfengis en mál gegn hjónunum var tekið fyrir í dag.
Hjónin voru sektuð um 4.100 pund, sem samsvarar 560.000 íslenskum krónum. Auk þess var Robert skipað að greiða 800 pund í skaðabætur vegna skemmda sem urðu í berserksganginum 4. febrúar. Hjónin viðurkenndu brot sín.
Gestur á hótelinu vaknaði rétt fyrir tvö um nótt við það að Fergus barði ákaft á dyrnar á herbergi hans. Maðurinn var nakinn og hrópaði svívirðingar að starfsfólki og gestum í anddyrinu.
„Ég ætla að ná í byssu og skjóta þig,“ á Ruth Fergus að hafa sagt við starfsmann.
„Ég efast ekki um að þú átt eftir að sjá eftir þessu það sem þú átt eftir ólifað,“ sagði lögreglustjórinn, Gillian Wade, við Robert.