Fjórir sýnishornamúrar í bígerð

Hluti landamæra Mexíkó og Bandaríkjanna er nú þegar merktur með …
Hluti landamæra Mexíkó og Bandaríkjanna er nú þegar merktur með nokkurs konar múr, líkt og sjá má í Sonoyta í norðurhluta Mexíkó og Arizona eyðimörkinni. AFP

Fjögur verktakafyrirtæki hafa verið valin til að reisa sýnishorn af landamæramúr milli Bandaríkjanna og Mexíkó. Múrarnir verða níu metrar að lengd og allt að níu metra háir og verða byggðir á næstu mánuðum.

Landamæramúrinn var eitt af helstu kosningaloforðum Donalds Trumps í kosningabaráttunni á síðasta ári og hefur Trump meðal annars sagst vera til­bú­inn til að hætta á að fjár­lög verði ekki samþykkt þannig að starf­semi mik­il­vægra rík­is­stofn­ana stöðvist ef það er það sem þurfi til að byggja múr á landa­mær­um Mexí­kó.

Yfirvöld munu eyða allt að tveimur mánuðum í að prófa múrana, meðal annars hvort hægt sé að komast í gegnum þá og hvort þeir verði fyrir miklu hnjaski þegar hinum ýmsu verkfærum er beitt á þá. 

Hver verktaki fær um hálfa milljón dollara til verksins. Ronald Vitiello, aðstoðarforstöðumaður tolla- og landamæraeftirlits Bandaríkjanna, segir í samtali við BBC að prófanirnar muni hjálpa til við að ákvarða lokahönnun múrsins. Vitiello segir jafnframt að hann viti ekki til þess að neinn verktakanna hafi reynslu af því að byggja múr í líkingu við landamæramúrinn sem á að reisa.

Yfir 200 fyrirtæki sýndu áhuga á verkinu. Fyrirtækin fjögur sem hafa verið valin munu nota steypu í múrinn en í næstu viku munu fjögur önnur fyrirtæki hefjast handa við byggingu múrs úr öðrum efnum en steypu.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka