Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna mun halda neyðarfund á mánudaginn til að ræða alþjóðlegt viðbragð við kjarnorkutilraunum Norður-Kóreu í nótt.Bandaríkin, Bretland, Japan, Frakkland og Suður-Kóreu fóru fram á að fundurinn yrði haldinn.
Fundurinn verður haldinn fyrir opnum tjöldum, en flestir fundur öryggisráðsins sem tengjast Norður-Kóreu hafa hingað til verið lokaðir.
Sprengingin sem var framkvæmd neðanjarðar er sú sjötta sem Norður-Kórea framkvæmir sem er í andstöðu við samþykkt öryggisráðsins sem bannar Norður-Kóreu að þróa kjarnorkuvopn og eldflaugaáætlun sína.
Þjóðarleiðtogar víða um heim hafa í dag fordæmt sprenginguna og hafa leiðtogar Bandaríkjanna og stórvelda í Evrópu kallað eftir hertari efnahagsþvingunum gegn ríkinu. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur jafnframt sagt að Bandaríkin skoði nú möguleikann á því að stöðva öll viðskipti við þau lönd sem stundi viðskipti við Norður-Kóreu.
Slíkt skref myndi hafa gríðarleg áhrif á stóran hluta viðskipta Bandaríkjanna, en helsti viðskiptaaðili Norður-Kóreu er Kína sem á í gríðarlega miklum viðskiptum við Bandaríkin.